Útsvarstekjur lækkuðu um 15,5% fyrstu sex mánuði ársins
Feykir sendi sveitarstjórum og oddvitum sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra nokkrar spurningar tengdar stöðu þeirra og horfum á þessum sérstöku tímum sem við lifum. Fyrst til að svara var Dagný Rósa Úlfarsdóttir í Skagabyggð en auk þess að gegna starfi oddvita Skagabyggðar er Dagný Rósa kennari í Höfðaskóla á Skagaströnd.
Fjöldi íbúa í Skagabyggð var 88 þann 1. október 2020 en þar er fyrst og fremst stundaður landbúnaður, þ.e. sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla, og þónokkur fjöldi íbúa vinnur við ýmis störf, bæði á Blönduósi og Skagaströnd.
Er mikið atvinnuleysi í sveitarfélaginu í kjölfar COVID? Þó nokkur fjöldi íbúa vinnur utan búsins. Skv. tölum frá Vinnumálastofnun hefur atvinnuleysi aukist í sveitarfélaginu á þessu ári. Þar sem íbúar sveitarfélagsins á vinnumarkaði eru ekki margir og um fáa einstaklinga að ræða sem eru atvinnulausir, þá er hver þeirra ansi hátt hlutfall af heildinni.
Hafa tekjur sveitarfélagsins, útsvar og framlög, minnkað vegna COVID? Útsvarstekjur hafa lækkað töluvert á árinu og má nefna að þær lækkuðu um 15,5% fyrstu 6 mánuði ársins, miðað við sama tímabil 2019. Framlög frá Jöfnunarsjóði hafa nokkurn veginn haldið áætlun.
Hafa útgjöld vegna félagsþjónustu og æskulýðsstarfs aukist á tímabilinu? Félagsþjónusta er rekin með öðrum sveitarfélögum í sýslunni og útgjöld sveitarfélagsins hafa ekki aukist að ráði umfram áætlanir. Hvað æskulýðsstarf varðar hafa útgjöld ekki aukist.
Hvernig er útlitið fyrir næsta ár? Það er útlit fyrir lægri framlög frá Jöfnunarsjóði og svo er aldrei að vita hvernig útsvarstekjur þróast, hvort þær hækki frá þessu ári eða standi í stað. Vonandi fer ástandið í þjóðfélaginu að batna og atvinnutækifærum að fjölga.
Mun sveitarfélagið fara í einhverjar framkvæmdir til að styðja við atvinnulífið á svæðinu? Ekki er það nú á áætlun að fara í beinan stuðning við atvinnulífið, þar sem við erum örlítið frábrugðin nágrannasveitarfélögum okkar að því leyti að hafa ekki þéttbýli og snúnara að koma af stað atvinnuskapandi verkefnum í sveitinni.
Er eitthvað sem þér finnst að ríkið mætti gera betur til að styðja við sveitarfélögin? Það má alltaf gera betur í stuðningi við sveitarfélögin. Tryggja þyrfti Jöfnunarsjóði aukin framlög þannig að skerðingar á framlögum kæmu ekki til framkvæmda og sjóðurinn gæti staðið fullkomlega við þau verkefni sem hann sinnir. Þá mætti hugsa upp á nýtt reglur um snjómokstur í dreifbýli, þ.e. hvað sveitarfélög eiga að greiða og hvað Vegagerðin greiðir. Helmingamokstursreglan er alveg galin og getur verið mjög íþyngjandi fyrir lítil sveitarfélög eins og Skagabyggð. Núgildandi viðmið geta varla talist góð í nútímasamfélagi þar sem fólk sækir daglega vinnu utan heimilis og börn þurfa að sækja skóla. Eins mætti hugsa sér breytingar á endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga og fjölga þeim liðum sem sveitarfélög geta fengið endurgreidda. Oft er um háar fjárhæðir þarna að ræða. Í ástandi eins og er núna í þjóðfélaginu ætti að vera hægt að gera tímabundnar breytingar.
Hver er þín tilfinning fyrir líðan íbúa og hvernig finnst þér þeir hafa brugðist við þessum breyttu aðstæðum sem heimsfaraldur hefur haft í för með sér? Ég held að íbúar Skagabyggðar taki ástandinu með æðruleysi. Allir eru að gera sitt besta í sínum aðstæðum. Hér eins og annars staðar líður íbúum misvel í ástandinu og mikilvægt að fólk hlúi að hvert öðru og sýni náunganum stuðning.
Hvað hefur þér fundist erfiðast við faraldurinn og/eða er eitthvað sem hefur komið þér á óvart? Auðvitað er erfitt að takast á við nýjar og breyttar aðstæður og fjölda áskorana sem faraldurinn hefur orsakað. Ekkert eitt er erfiðara en annað, nema kannski að taka ekki lengur í hendurnar á fólki þegar því er heilsað. Samskipti hafa færst mikið yfir á rafrænt form og má segja að það hafi kannski komið mest á óvart hvað fólk er duglegt að tileinka sér ný vinnubrögð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.