Útsendingar svæðisstöðvanna á Norðurlandi og Austurlandi sameinaðar

ras2_ruvÁkveðið hefur verið að sameina útsendingar svæðisstöðva Ríkisútvarpsins á Norðurlandi og Austurlandi. Nýr frétta- og dægurmálaþáttur hefur göngu sína þriðjudaginn 24. nóvember, sendur út á svæðinu frá Hrútafirði til Hornafjarðar. Útsendingin lengist frá því sem nú er og verður frá kl. 17:20 til 18:00, mánudaga til föstudaga. Það þýðir að nú bætast mánudagar við svæðisútsendingar á Austurlandi.

 Á Akureyri og Egilsstöðum starfar öflugur hópur af reyndu fólki, fimm fréttamenn, auk tæknimanna og svæðisstjóra. Með sameiningu eru lagðir saman þessir kraftar og um leið næst fram betri nýting á mannskap og meiri yfirferð á svæðinu öllu. Þetta gefur um leið meira svigrúm til ítarlegri fréttaumfjöllunar, auk þess sem sameining eykur möguleikann á að þau svæði sem liggja fjærst svæðisstöðvunum tveimur fái aukna athygli.

 Jafnhliða sameiningu svæðisútsendinga á Norður- og Austurlandi hefur göngu sína nýr fréttatími  kl. 11 á morgnana á Rás2. Fréttirnar verða sagðar frá Akureyri og lögð áhersla á fréttir frá öllum svæðisstöðvum Ríkisútvarpsins og fréttariturum um land allt. Þessum nýja fréttatíma er ætlað að undirstrika mikilvægi fréttaöflunar á landsbyggðinni, en er um leið skref í þá átt að sérvinna fréttir fyrir Rás 2.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir