Úrbeinað lambalæri, grafinn ærvöðvi og eplakaka

Það eru bændurnir á Brúnastöðum í Fljótum, Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Ríkarðsson sem eiga uppskriftir Feykis þessa vikuna. Sem sannir sauðfjárbændur bjóða þau upp á afurð úr þeim geiranum að undanskildum eplunum.

Forréttur:

Grafinn ærvöðvi

Veljið vöðva úr hrygg eða innanlæri.  Vöðvinn má ekki vera of þykkur, 3 – 4 cm er fínt.  Blandið síðan saman timian, basilikum, oregano, rosmarin, sinnepsfræi, dillfræ, grófu salti, rósapipar og svörtum pipar, einni matskeið af hvoru, í mortéli og myljið vel.  Vöðvanum velt upp úr kryddblöndunni, pakkað vel inn í plast og geymdur í ískáp í ca. tvo sólarhringa.  Sett í frysti og sneitt í mjög þunnar sneiðar hálffrosið.

Sósa: 

1 dl balsamedik, 1dl hlynsíróp og 2,5 dl púrtvín soðið niður um ca. helming við vægan hita.   Smakkað til með timian, blóðberg og örlitlu salti.  Kælt.  Valhnetur, heslihnetur og furuhnetur saxaðar smátt og ristaðar og settar út í sósuna rétt fyrir notkun. Kjötsneiðarnar settar ofan á snittubrauð  ásamt sósunni, salati  að smekk og sykurmelónu.

 

Aðalréttur: 

Úrbeinað lambalæri að hætti Hjördísar

Lambalæri úrbeinað og skipt í nokkra parta, sem mest eftir vöðvunum.  Kryddað með Eðalkryddi, Ítalskri hvítlauksblöndu og Lamb Islandia frá Pottagöldrum.  Geymt í kæli yfir nótt.  Mikilvægt er að kjötið hafi náð sem næst stofuhita þegar það er annaðhvort steikt á pönnu eða sett á grillið.  Ef kjötið er steikt á pönnu er það sett í heitan ofn í smá stund, en það þarf að passa vel að kjötið sé ekki ofeldað.  Borið fram með bökuðum kartöflum, ofnsteiktu grænmeti og villisveppa-gráðostasósu.

Ofnsteikt grænmeti:

Sætar kartöflur, brokkoli, blómkál, kúrbítur og rauðlaukur skorið í bita.  Velt upp úr olíu og kryddað með Ítalskri hvítlauksblöndu frá Pottagöldrum.  Sett í eldfast mót og bakað í ofni við hægan hita þar til það er gegnsteikt.

Sósa: 

1 pakki villisveppir, ½ l rjómi, 1 stk gráðostur,  ½ piparostur.  Meðhöndlið sveppina samkvæmt leiðbeiningum á pakka.  Steikið á pönnu, bætið rjómanum við ásamt ostunum.  Hitið þar til hæfilega þykkt.

 

Eftirréttur:

Eplakaka

  • 100 gr brætt smjör
  • 3 dl haframjöl
  • 1,5 dl sykur
  • 2 eggjarauður
  • 1,5 msk hveiti
  • 1 tsk lyftiduft

Öllu blandað saman og sett í botninn á eldföstu móti.  Bakað í 20 mín við 175°C.  Epli afhýdd og skorin í báta.  Soðin mjúk og vatninu hellt af.  Raðað ofan á botninn.  2 eggjahvítur stífþeyttar ásamt 100 gr af sykri og settar ofan á eplin.  Bakað  við 150°C þar til eggjahvíturnar hafa náð gullbrúnum lit.  Borið fram heitt ásamt þeyttum rjóma eða vanilluís.

Verði ykkur að góðu!

 

Áður birt í 14. tbl. Feykis 2010

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir