Uppskeruhátíð í Húnabyggð
Helgina 25. -27. ágúst verður Uppskeruhátíð í tengslum við Vatnsdælu- og Þrístapa verkefni sem unnið hefur verið að um nokkurt skeið. „Þetta er komið til þannig að við höfum verið að vinna að því að bæta aðgengi ferðamanna að áhugaverðum stöðum og náttúrunni á slóð Vatnsdælu og við Þrístapa þar sem sögunni um Agnesi og Friðrik eru gerð góð skil,“ segir Elfa Þöll Guðjónsdóttir, ferðamálafulltrúi Húnabyggðar, sem heldur utan um hátíðina.
Hugmyndin var að halda lágstemmdan viðburð fyrir heimamenn, brottflutta Húnvetninga og aðra gesti til að kynna það sem hefur verið gert. Mikið hefur verið rætt hvað þetta svæði sé frábært til alls konar útivistar, mjög áhugaverðar og fallegar göngu-, hlaupa-, hjóla- og reiðleiðir. „Það má því segja að þessi viðburður sé í senn til að fagna því sem búið er að gera og eins er þetta ákveðin vöruþróun því okkur langar til að skoða áhuga á þessu svæði, fyrir annars vegar söguferðaþjónustu og hins vegar náttúruhlaupum og gönguferðum. Við erum að renna algjörlega blint í sjóinn með þennan viðburð en við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð“. Elfa segir að lokum að þetta sé æfing fyrir eitthvað stærra í framtíðinni.
Dagskráin er mjög fjölbreytt og skemmtileg, Sögu og útýsinsganga á Hofi, Magnús á Sveinsstöðum gengur með gestum um sögusvið síðustu aftöku á Íslandi, Njálsbrennusaga og Flugmýrartvist með Einari Kárasyni, Hestaleigan Galsi býður börnum á hestbak, Saumað í Vatnsdælurefilinn, Hundur í óskilum með tónleika, svo fátt eitt sé nefnt, það er greinilegt að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og hér er metnaðarfull og spennandi dagskrá alla helgina.
Nánari dagskrá má finna inná vefsíðu Húnabyggðar hunabyggd.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.