Upplýsingaskylda stjórnvalda – ekki er vanþörf á
feykir.is
Aðsendar greinar
06.01.2012
kl. 13.15
Nýjasta sönnun þess hversu brýnt er að auka upplýsingaskyldu stjórnvalda í umhverfismálum birtist okkur í kadmíum-áburðarmálinu svokallaða. Þegar alltof mikið magn af þungmálminum kadmíum fannst í áburði sem seldur var í fyrra var ekki upplýst um málið – hvað þá gripið til ráðstafana – fyrr en ríflega hálfu ári síðar, löngu eftir að allt efnið var komið á tún og þar með út í vistkerfið.
Málsbætur eftirlitsaðila eru þær að ekki hafi þótt bráð hætta á ferðum þar sem einungis hafi verið um einangrað tilvik að ræða og neikvæð áhrif kadmíums séu ekki teljandi nema frávikið endurtaki sig ár eftir ár.
Kadmíum telst engu að síður til óæskilegra þungmálma sem safnast fyrir í vefjum lífvera og í vistkerfum. Þannig safnast það til dæmis fyrir í innyflum dýra sem ýmis matvara er unnin úr, og í kartöflum og grænmeti. Á vef Umhverfisstofnunar segir að efnið sé hugsanlega krabbameinsvaldandi, það veiki bein, skemmi nýru og lungu og valdi beinverkjum í liðamótum. Viðbragðsleysi eftirlitsstofnana hlýtur því að vekja áleitnar spurningar um rétt almennings og frumkvæðisskyldu stjórnvalda þegar jafn mikið frávik á sér stað frá lögboðnum takmörkunum óæskilegra efna í umhverfinu, og þarna varð.
Flestum er enn í fersku minni díoxíðmálið sem kom upp á síðasta ári, þegar í ljós kom að díoxíðmengun frá þremur sorpbrennslustöðvum á landsbyggðinni hafði um langt skeið verið tugfalt yfir leyfilegum mörkum. Þá, líkt og nú, kom í ljós að stjórnsýslan og eftirlitsaðilar virðast ófær um að bregðast skjótt og fumlaust við slíkum atvikum. Skortur á upplýsingaflæði, lítil eftirfylgni og takmörkuð heildarsýn virðist ráða þar mestu – í díoxíðmálinu réði einnig lélegt gagnalæsi og ráðaleysi, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Nú er það ekki þannig að þvingunarúrræði skorti, eða eftirlitsreglur vegna starfleyfisveitinga. Það sem á skortir er festa og fagmennska við framkvæmd þeirra.
Hlutverk stjórnsýslu- og eftirlitsstofnana er – samkvæmt íslensku lögum og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að – að verja almannahagsmuni og vernda íbúa landsins. Þetta hlutverk hefur hins vegar þynnst út í þeim hluta lagasetningarinnar sem útfærir nánar afmarkaða þætti stjórnsýslu og eftirlits. Almannahagsmuni og almannaheill þarf að skýra betur í íslenskri löggjöf og stjórnarskrá. Löggjöfin þarf að kveða fastar á um viðbragðs- og upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart almenningi, sem og rétt íbúa til þess að vernda heilsu sína og lífsgæði.
Af þessari ástæðu lagði ég fram á síðasta vorþingi, og aftur nú á haustþingi, frumvarp til laga um herta upplýsingaskyldu stjórnvalda í umhverfismálum. Lagðar eru til þó nokkrar breytingar á þremur greinum laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál . Lagt er til að við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein sem skyldar stjórnvöld afdráttarlaust til þess að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að veruleg frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Allar miða breytingarnar að því að tryggja rétt almennings til þess að fá og frumkvæðisskyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar um umhverfismál.
Dæmin sanna að ekki er vanþörf á.
Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður.
Höfundur er varaformaður umhverfis – og samgöngunefndar Alþingis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.