Uppbygging á Blönduósi og 33 lóðir til úthlutunar
Nú í lok febrúar auglýsti Húnabyggð 33 lóðir til úthlutunar í nýju hverfi á Blönduósi. Um er að ræða 22 einbýlishúsalóðir og ellefu par- og raðhúsalóðir og eru þær staðsettar við Fjallabraut, Holtabraut, Hólabraut og Lækjarbraut. Í samtali við RÚV segir Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, uppbygginguna svara þeirri eftirspurn sem hafi verið eftir húsnæði í sveitarfélaginu.
„Þó svo að íbúafjölgun sé kannski ekki gífurlega mikil hérna á þessu svæði þá er það samt þannig að það vantar húsnæði,“ er haft eftir Pétri í frétt RÚV. Um 930 manns búa á Blönduósi en sterfnt er að því að um 50 íbúðir verði byggðar í nýja hverfinu og munar því talsvert um þá fólksfjölgun sem fylgir. Pétur segir þessa uppbyggingu virka sem vítamínsprautu á samfélagið og þegar séu fyrirtæki að flytja starfsemi til Blönduóss sem hafi í för með sér fjölgun starfa.
Það er því áskorun fyrir lítið samfélag að vaxa hratt. Pétur nefnir í viðtalinu að leikskólinn Barnabær, sem stendur við Húnabraut, sé orðinn of lítill og það þurfi að stækka hann. „Það er dæmi um annað verkefni og innviði sem við þurfum að byggja upp á næstu misserum,“ segir Pétur. Nýja hverfið verður reist norður af leikskólalóðinni.
Opnað var fyrir úthlutanir lóða þann 27. febrúar sl. og verður opið fyrir umsóknir til og með 22. mars 2023.
Sjá nánar á vef Húnabyggðar >
Heimildir: RÚV og Húnahornið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.