UMSS 100 ára 17. apríl

 Ungmennasamband Skagafjarðar fagnar 100 ára afmæli sínu um þessar mundir, en það var stofnað að Vík í Staðarhreppi 17. apríl 1910.

Fyrsta ungmennafélagið í Skagafirði, Æskan í Staðarhreppi, var stofnað af 15 drengjum 20. okt. 1905, að frumkvæði Jóns Sigurðssonar, síðar bónda og alþingismanns á Reynistað. Skömmu síðar bættust svo við Framför í Lýtingsstaðahreppi, Fram í Seyluhreppi og Hegri í Hegranesi, en þessi  félög stofnuðu UMSS. Ungmennafélagið Tindastóll á Sauðárkróki var stofnað árið 1907 og Glóðafeykir í Akrahreppi 1908, en þau gengu ekki í í sambandið fyrr en síðar. Fyrsti formaður UMSS var Brynleifur Tobíasson, en með honum í stjórn voru Árni J. Hafstað og Jón Sigurðsson.

Aðildarfélög UMSS eru nú 12. Formaður er Hrefna Gerður Björnsdóttir, en aðrir stjórnarmenn eru Hjalti Þórðarson, Sigurjón Leifsson, Sigmundur Jóhannesson og Sigurgeir Þorgeirsson.

Í tilefni aldarafmælisins er ráðgert að gefa út blað og einnig hefur verið afráðið að setja upp ljósmyndasafn á veraldarvefnum, þar sem safnað verður saman gömlum og nýjum myndum úr íþróttastarfinu í Skagafirði. Hjalti Þórðarson hefur umsjón með verkinu og er skorað á alla sem luma á myndefni, að hafa samband við hann og leyfa afnot af efninu..

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir