Tvöfaldur Tindastólssigur í tvíhöfða gegn Hamri
Lið Tindastóls og Hamars úr Hveragerði mættust tvívegis í Síkinu um helgina í 1. deild kvenna í körfubolta. Það fór svo að lið Tindastóls sigraði í báðum leikjunum og situr nú eitt á toppi deildarinnar, en reyndar búið að spila leik meira en næstu lið fyrir neðan. Fyrri leikurinn gegn Hamri, sem fram fór á laugardag, vannst með sex stiga mun, 78-72, en yfirburðir heimastúlkna voru meiri í síðari leiknum á sunnudeginum sem endaði 78-58.
Fyrir leikina þá hafði lið Hamars ekki unnið leik í deildinni og engin breyting varð á því. Hvergerðingar hafa þó ekki verið að tapa með miklum mun enda virðist meira jafnræði með liðunum í deildinni í ár en á síðasta tímabili.
Jafnræði var með liðunum framan af fyrri leiknum og skiptust þau á um að hafa forystuna. Sex stig frá Marínu Lind undir lok fyrsta leikhluta sáu til þess að Tindastóll var yfir, 22-16, að loknum fyrsta leikhluta. Marín hóf annan leikhluta með þristi en síðan var það Tess sem gerði næstu körfur Tindastóls og staðan 31-22 þegar leikhlutinn var hálfnaður en mest náðu Stólastúlkur 14 stiga forystu í fyrri hálfleik. Staðan 39-28 í leikhléi. Munurinn var jafnan um tíu stig fyrstu mínútur þriðja leikhluta en Dagrún Jónsdóttir minnkaði muninn í fimm stig, 49-44, en körfur frá Rakel Rós, Heru Sigrúnu og Tess löguðu stöðuna á nýja leik en níu stigum munaði fyrir lokafjórðunginn. Heimastúlkur hittu ágætalega framan af fjórða leikhluta og þristar frá Marínu Lind, Kareni Lind og Kristínu Höllu juku muninn í 16 stig þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Síðustu mínúturnar fengu óreyndari Stólastúlkur að spreyta sig og gestirnir náðu að minnka muninn en það dugði skammt. Lokatölur 78-72.
Líkt og í fyrri leik liðanna þá skiptustu liðin á um að hafa forystuna framan af leik á sunnudaginn. Góður kafli heimastúlkna upp úr miðjum fyrsta leikhluta breytti stöðunni úr 10-13 í 21-15 en gestirnir löguðu stöðuna áður en fyrsta leikhluta lauk og staðan þá 21-18. Smá saman skildu leiðir í öðrum leikhluta, fyrst í tíu stig en þristar frá Heru Sigrúnu og Kristínu Höllu bjuggu til 15 stiga forskot en tólf stigum munaði í hálfleik, 41-29. Hvergerðingar komu inn með góða baráttu í síðari hálfleik en Tess sá til þess að munurinn á liðunum var yfirleitt um tíu stig. Góður kafli Tindastóls seint í þriðja leikhluta gaf körfur frá Kareni Lind, Telmu Ösp og Tess og staðan 59-42. Staðan var 60-43 við upphaf fjórða leikhluta og minnstur varð munurinn tólf stig, 67-55, þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir en þristur frá Hrefnu slökkti að mestu í vonum Hamarsstúlkna og á endanum sigraði lið Tindastóls með 20 stiga mun. Lokatölur 78-58.
Niðurstaðan því tveir góðir sigrar Tindastóls og liðið hefur nú unnið fjóra af fimm leikjum sínum í deildinni og alla á heimavelli. Tess Williams var að vanda stigahæst en að þessu sinni dreifðist ábyrgðin meira á milli leikmanna. Tess var með 22 stig í fyrri leiknum en 25 í þeim síðari en þar bar það helst til tíðinda að hún klikkaði á tveimur vítum. Marín Lind var með 26 stig alls í leikjunum, Telma Ösp Einarsdóttir var með alls 22 stig og Hrefna Ottósdóttir 18 svo einhverjar séu nefndar.
Næstkomandi laugardag eiga stelpurnar leik við Birnu Eiríks og sprækar vinkonur hennar í liði ÍR og fer leikurinn fram í Hertz-hellinum í Seljaskóla og hefst kl. 16:00. Allir í Hellinn og áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.