Tvö kaupfélög eftir

Gunnar Bragi Sveinsson skiptist á orðum við Össur Skarphéðinsson í dag.

Mbl.is segir frá því að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að tvö kaupfélög væru eftir í heiminum: Kaupfélag Skagfirðinga og Evrópusambandið; og hann styddi bæði.

Þeir Össur og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, áttu í orðaskiptum á Alþingi í dag um svör  stjórnsýslunnar við spurningum Evrópusambandsins. Sagði Gunnar Bragi m.a. að virtur hefði verið að vettugi vilji Alþingis um að ráðgefandi hópar, sem eftir á að skipa, fari yfir svör stjórnsýslunnar áður en þau séu send til Evrópusambandsins. Með þessu væri farið gróflega á svig við samþykkt Alþingis.

Össur sagðist vera eins og Gunnar Bragi mikill stuðningsmaður Kaupfélags Skagfirðinga. „Það eru tvö kaupfélög eftir í heiminum, kaupfélagið í Skagafirði og Evrópusambandið og ég styð bæði," sagði Össur og bætti við að ýmislegt benti til þess að Gunnar Bragi væri að snúast æ meira á sveif með síðarnefnda kaupfélaginu.

Gunnar Bragi svaraði að 800 milljónir manna væru félagar í samvinnufélögum og kaupfélögum víða um heim og því væru kaupfélögin öllu fleiri en þau sem Össur nefndi. „Og ég hef grun um að áhugi hans á síðarnefnda kaupfélaginu sé dýpri en minn," sagði hann.
Heimild: Mbl.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir