Tveir sigrar Stóla í Mjólkurbikar
Það var kátt á gervigrasinu á Króknum í gær þegar meistaraflokkar Tindastóls unnu báða sína leiki í annarri umferð Mjólkurbikarskeppninnar og komu sér áfram í keppninni. Stelpurnar fengu Völsung frá Húsavík í heimsókn og strákarnir lið Samherja úr Eyjafirði en ljóst er að mótherjar næstu umferðar verða mun erfiðari. Stelpurnar mæta Pepsí-deildarliði KR syðra og strákarnir mæta ÍBV í Vestmannaeyjum en þeir leika í Lengju-deildinni í ár.
Stelpurnar hófu sinn leik kl. 14 og var ekki langt liðið á leikinn þegar fyrsta markið kom en þá skoraði Hugrún Pálsdóttir sitt fyrsta mark í sumar á 7. mínútu. Hún var aldeilis ekki hætt því á 28. mínútu bætti hún öðru marki við og kom Stólum í 2-0. Þriðja markið er skráð sjálfsmark Völsungs en svo virtist sem Hrafnhildur Björnsdóttir hafi potað boltanum inn eftir hornspyrnu en fór í varnarmann á leið sinni í netið. En það var Hugrún sem var mætt á skotskónum sem fullkomnaði þrennu sína og fjórða mark heimastúlkna á 53. mínútu og gerði þar með út um leikinn. Rétt fyrir leikslok náði Hildur Anna Brynjarsdóttir að laga stöðu gestanna með síðasta marki leiksins. Stelpurnar komnar áfram og leika næst við KR stúlkur á Meistaravöllum þann 10. júlí og eiga harma að hefna frá því í fyrra er liðinn áttust við í bikarnum. Þá náðu KR að merja sigur 1-0 á sínum heimavelli.
„Frábært að byrja tímabilið á flottum sigri! Við vorum flottar sóknarlega, náðum að fylgja okkar leikskipulagi og klára færin vel. Varnarlega þá vorum við fínar og erum að byggja ofan á varnarleikinn,“ segir Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls.
Henni finnst liðið koma vel út eftir veturinn og segir það verða gaman að halda áfram að þróa leik liðsins. „Deildin byrjar í næstu viku og við þurfum að einbeita okkur að einum leik í einu til að stíga í átt að markmiði okkar. Þetta verður erfitt þar sem leikjaskipulagið er þétt en við höfum góða breidd í liðinu sem er lykilatriði. Vil hvetja alla Tindastólsmenn að mæta á leikina hjá okkur í mfl. kvenna og karla í sumar til að styðja við bakið á okkur. Áfram Tindastóll!“
Á leið til Eyja
Seinni leikur dagsins var karlaleikurinn á móti Samherjum úr Eyjafirði en þeir voru aðeins sýnd veiði en ekki gefin þrátt fyrir að leika í deild neðar en Stólarnir. Gestirnir komust yfir er tæpur hálftími var liðin af leiknum þegar Hreggviður Heiðberg Gunnarsson skoraði úr vítaspyrnu og 1-0 staðreynd sem var staðan í hálfleik. Það glaðnaði heldur yfir stuðningsmönnum heimamanna þegar Luke Morgan Conrad Rae jafnaði metin eftir klukkutíma leik og ekki minnkaði gleðin þegar Jónas Aron Ólafsson tryggði Stólunum farseðilinn til Eyja undir lok leiksins en þangað er ferðinni heitið eftir að dregið var í 3. umferð Mjólkurbikarsins. Fer sá leikur fram 24. júní á Hásteinsvelli.
„Leikurinn í gær reyndist okkur erfiður. Þeir lágu svolítið til baka og lokuðu á það sem við reyndum að gera, svo fá þeir mjög ódýrt víti að mínu mati og þá heppnaðist þeirra leikplan fullkomlega. Gátu verið enn þéttari til baka og gekk illa hjá okkur að brjóta þá niður en það tókst á endanum og við unnum sætan sigur og komumst áfram sem skiptir öllu máli,“ segir Ísak Sigurjónsson, fyrirliði Stólanna um leik gærdagsins.
Næsti leikur er á móti Hugin/Hetti hér heima og býst Ísak við hörkuleik. „Huginn/Höttur er með flott lið og við líka og við stefnum á að verja heimavöllinn og sækja fyrstu þrjú stigin i deildinni. Ég sé okkur berjast um að fara upp en við þurfum að slípa okkur aðeins betur saman. Við höfum bara æft saman í tvær vikur og þetta er allt farið að líta vel út svo eigum við Tanner inni sem á flug 24. juní svo ég er mjög bjartsýnn á framhaldið,“ segir Ísak sem er þakklátur fyrir góða mætingu á völlinn í síðustu tveimur leikjum. „Ég vona að þetta sé það sem koma skal í sumar því stuðningur frá fólkinu gefur okkur heilmikið og vonast ég til að enn fleiri komi á leiki hjá kvenna- og karlaliðinu í sumar og vona ég að bæði lið fari upp um deild og tel ég þau vera með það góð lið að þau geti það og Áfram Tindastóll!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.