Tvær asískar kássur

Pottréttur.
Pottréttur.

Góður pottréttur klikkar sjaldan og gengur við flest tækifæri. Í uppskriftamöppu umsjónarmanns matarþáttar Feykis leynist ógrynni uppskrifta af pottréttum með hinum ýmsu kryddum og blæbrigðum. Í 15. tbl. Feykis árið 2018 birtust uppskriftir að tveimur slíkum með austurlensku sniði, ólíkar en báðar afbragðsgóðar.

RÉTTUR 1
Indverskur kjúklingaréttur

3 rauð epli
1-2 hvítlauksgeirar
1 kjúklingur
2 laukar
4-6 msk. mango chutney
1 rauð paprika
4 msk. olía
½ msk. tandoori masala
½ msk. tandoori curry-krydd

Aðferð:
Steikið kjúklinginn, úrbeinið hann og skerið í bita. Hitið olíuna á pönnu, stráið karríi á pönnuna og hluta af masala-kryddinu. Saxið laukinn og látið hann krauma í olíunni þar til hann er orðinn mjúkur. Afhýðið eplin og skerið í bita, bætið þeim á pönnuna og látið krauma í nokkrar mínútur. Bætið pressuðum hvítlauknum og saxaðri paprikunni út í, steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum við og bragðbætið með mango chutney. Kryddið með afganginum af masala kryddinu, má sleppa ef ykkur finnst rétturinn vera orðinn nógu sterkur. Borið fram með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði eða naan-brauði.

Naan-brauð

Naanbrauð.


450 g hveiti
2 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
3-3½ dl Ab mjólk
krydd að eigin vali, t.d. ferskur kóríander, hvítlaukur eða saxað chili

Aðferð:
Blandið þurrefnunum saman í skál og bætið Ab-mjólkinni út í ásamt olíu. Hnoðið deigið saman, fletjið það út og skerið í passlegar kökur. Athugið að hafa þær ekki of þykkar.
Bakið á pönnu á báðum hliðum þar til brauðið er gegnumsteikt. Breiðið rakt stykki yfir brauðin þegar þau eru tilbúin. Gott er að smyrja þau með hvítlaukssmjöri.

RÉTTUR 2
Indónesískur lambakjötspottréttur

800-1000 g beinlaust lambakjöt í bitum
1 laukur, saxaður
1 hvítlauksgeiri, saxaður
matarolía til steikingar
1 dós tómatsósa (400 g)
1 lítil dós tómatpurra
1½ dl vatn
2 msk. púðursykur
2 tsk. sterkt karrí
½ -1 tsk. sjávarsalt með jurtum
1 kjúklingateningur
2 epli, afhýdd og skorin í bita
1 appelsína með berki í þunnum sneiðum
½ dl rúsínur

Aðferð:
Brúnið lauk, hvítlauk og kjöt í potti. Setjið allt út í pottinn og sjóðið við vægan hita í u.þ.b. 45 mínútur. Hrærið í af og til. Borið fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir