Tjaldstæðið á Sauðárkróki

Tjaldstæðið okkar Sauðkrækinga hefur í gegn um árin verið svolítið týnt í tilverunni. Ávallt hefur verið litið á staðsetningu þess á Flæðunum til bráðabirgða á meðan leitað hefur verið að öðru heppilegu svæði undir það. Skv nýju aðalskipulagi er gert ráð fyrir því að fara með það upp á Nafir, í alla norðangoluna og fjarri þjónustu sem þyrfti þá að byggja upp þar.

Ég er hins vegar á því að við eigum að hafa tjaldstæðið þarna til frambúðar og hefja þegar í stað uppbyggingu þess með það að markmiði að færa það í flokk þeirra bestu á landinu og verða sannkölluð bæjarprýði. Nú er komið fyrirmyndar aðstöðuhús á svæðið sem tjaldgestir geta nýtt sér og er það á við það besta sem gerist í dag.

Eins og tjaldstæðið er í dag, berangurslegt tún, er það ekki mjög áhugaverður kostur fyrir fjölskyldufólk að pota sér niður á, nema ef vera skyldi staðsetningin, með tilliti til þjónustunnar sem má finna í nágrenninu. Það er nefnilega málið að staðsetningin í dag er með þeim hætti að stutt er í alla þjónustu. Sundlaugin er þarna við hliðina, göngufæri í verslanir og nauðsynlega þjónustu, stutt upp á Nafir í fallegt umhverfi, minigolf og strandblak við sundlaugina, hraðbanki í 100 metra fjarlægð, veitingahús skammt undan og fleira mætti tína til. Það er mikill kostur að staðsetja tjaldsvæði við sundlaugar sem dæmi og það eykur notagildi hvorrar aðstöðu fyrir sig. Það er þekkt víða að tjaldsvæði eru inni í miðjum bæjum og sé snyrtilega frá þeim gengið geta þau verið sannkölluð bæjarprýði.

Með því að taka svæðið föstum tökum og byggja það upp á núverandi stað er það mín skoðun að við getum fjölgað tjaldferðalöngum mikið hér á Króknum til hagsbóta fyrir verslun og þjónustu á svæðinu og um leið komið okkur betur á kortið hjá öllum þeim fjölda ferðamanna sem kjósa að ferðast um landið með tjöld, fellihýsi eða hjólhýsi. Sá hópur á síst eftir að minnka þegar fram í sækir.

Skv könnun um ferðavenjur Íslendinga 2009, sem Markaðs- og miðlarannsóknir gerðu fyrir Ferðamálastofu, kemur fram að 52,2% íslenskra ferðamanna gistu í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl og önnur áhugaverð staðreynd er sú að 58,5% íslenskra ferðamanna, völdu að ferðast á Norðurlandi og gista þar. Það er því eftir nógu að slægast að mínu mati. Könnunina má sjá í heild sinni inni á vef Ferðamálastofu.

Við þurfum að aðgreina tjaldsvæðið betur frá umferðinni við Skagfirðingabraut og það er einfalt mál með fljótsprettandi trjágróðri. Síðan má með gróðri sömuleiðis, stúka svæðið af í nokkur minni svæði inn á milli. Þetta er ekki flókin framkvæmd eða of dýr til að hægt sé að ráðast í hana. Krafan um rafmagn á tjaldstæðum er rík og verður ríkari með ári hverju og það þarf sannarlega að byggja tjaldstæðið upp miðað við þá þörf og er nú þegar kominn vísir að því.

Ég myndi síðan vilja sjá gömlu hesthúsin sem voru í hlíðinni fyrir ofan tjaldsvæðið endurbyggð, þar sem hægt væri að byggja upp þjónustu við tjaldgesti, jafnvel starfrækja upplýsingamiðstöð og hafa skemmtilegt kaffihús. Það myndi setja sterkan og skemmtilegan svip á svæðið. Svo má leika sér að þessu enn meira með því að sjá fyrir sér litla gistikofa, eða „hyttur“ í beinni röð rétt þar fyrir neðan. En það er verkefni áhugasamra einkaaðila, ekki sveitarfélagsins.

En ég vil að lokum hvetja ráðamenn til að breyta fyrirhugðum áætlunum um að færa tjaldstæðið og hefja þegar í stað uppbyggingu þess á núverandi stað. Gera það í senn að einu því glæsilegasta á landinu og að bæjarprýði. Það þarf ekkert að gerast allt í einu, heldur má byggja þetta upp á næstu 3-4 árum með þennan endapunkt sem markmið.

Karl Jónsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir