Tindastóll með sigur í gær

tindastoll hopmyndTindastóll mætti Grafarvogsdrengjum í Fjölni í Síkinu á Sauðárkróki í gærkvöld. Bæði lið í neðri hluta deildarinnar, en heimamenn þó í betri málum í 9. sætinu með 6 stig, en Fjölnir með 4 stig í því 11. Amani Bin Daanish var að leika sinn síðasta leik fyrir Tindastól, en samningi hans hefur verið sagt upp og er nýr kani væntanlegur á Krókinn eftir jól.

Tindastóll byrjaði með Axel, Amani, Svavar, Helga Rafn og Michael inná, en Fjölnir hóf leik með þá Ingvald Magna, Ægir, Níels, Christopher og Arnþór.  Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og bæði lið ekki að hitta neitt sérstaklega. Jafnt var á flestum tölum þar til að Tindastóll náði að skora sjö stig í röð undir lok fyrsta leikhluta. Fjölnir náði inn tveimur stigum áður en hann leið allur og staðan því 22 – 18.

Eitthvað virtust heimamenn dofnir í byrjun annars leikhluta því gestirnir skoruðu fyrstu 12 stig leikhlutans og Kalli tók leikhlé fyrir Tindastól. Stólarnir mættu aftur til leiks eftir það og söxuðu jafnt og þétt á muninn. Þeir náðu þó ekki að brúa hann fyrir hálfleikshléið, en staðan var þá 39 – 41. Fjölnir var að spila góða vörn í fyrri hálfleik og sóknarleikur Tindastóls var frekar stirðbusalegur á löngum köflum. Þeir héldu sér þó inn í leiknum með þokkalegri vörn, en greinilegt var að ýmislegt þurfti að laga fyrir síðari hálfleik.  Christopher Smith var öflugur í fyrri hálfleik fyrir Fjölnir og var kominn með 14 stig.

Síðari hálfleikur byrjaði vel fyrir Tindastól sem jöfnuðu leikinn fljótlega í byrjun þriðja leikhlutans. Jafnræði var svo með liðunum fyrstu mínúturnar, en í stöðunni 49 – 48 skoruðu heimamenn níu stig í röð. Þrátt fyrir að Ægir Steinarsson svaraði með fimm stigum þá tóku Stólarnir bara annan sprett og skoruðu nú átta stig í röð. Þeir leiddu því skyndilega með 15 stigum. Staðan 68 – 53 og fjórði leikhluti bara eftir.

Ekki voru Fjölnismenn dauðir úr öllum æðum því Tómas Tómasson setti tvö þrista í röð strax í byrjun fjórða fjórðungs og Smith bætti við tveimur stigum. Munurinn orðinn 7 stig og gestirnir eygðu von um að koma sér aftur inn í leikinn. Kalli tók þá aftur leikhlé til að reyna að slá á þessar vonir og tókst það því Stólarnir héldu Fjölnismönnum frá sér það sem eftir lifði leiks. Munurinn var lengstum átta til tíu stig, en í stöðunni 82 – 75 missti Fjölnir Smith útaf með 5 villur og ein og tuttugu eftir á klukkunni.  Fjölnir skoraði ekki stig eftir þetta, en brutu á heimamönnum og sendu þá á vítalínuna í tilraunum til að minnka muninn, en Stólarnir héldu ró sinni og lönduðu mikilvægum 15 stiga sigri, 90 – 75. 

Bestir heimamanna voru þeir Svavar og Helgi Rafn og þá átti Amani ágætis kvöld og skilaði sínu vel með 19 stig og 9 fráköst.  Hjá gestunum var það Smith sem sýndi hvað mest og þá áttu Tómas og Ægir fína spretti, sérstaklega Ægir, en hann var með 15 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar.  Tindastóll er með 8 stig eftir þennan sigur og búnir að slíta sig aðeins frá botnliðunum þremur, en sitja samt ennþá í 9. sætinu.

Stigaskor Tindastóls: Svavar Birgisson 22, Helgi Rafn Viggósson 20, Amani Bin Daanish 19, Friðrik Hreinsson 12, Axel Kárason 6, Michael Giovacchini 5, Helgi Freyr Margeirsson 4, Sveinbjörn Skúlason 2.

Fjölnir: Christopher Smith 20, Tómas Tómasson 16, Ægir Steinarsson 15, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 11, Arnþór Guðmundsson 7, Árni Jónsson 3, Níels Dungal 3.

Dómarar voru þeir Sigmundur Már Herbertsson og Georg Andersen og skiluðu sínu þokkalega, þó gestirnir sýndu ekki alltaf mikla hrifningu með dómana þeirra.

Áhorfendur: 220.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir