Tindastóll mætir Grindavík í Síkinu í kvöld

Strákarnir eru búnir að æfa stíft síðan í ágúst og eru tilbúnir í slaginn þó svo að enn vanti stóra kanann í liðið.

Fyrsti heimaleikur Tindastóls í Iceland Express deild karla er á í kvöld en Stólarnir taka á móti nýkrýndum  Powerade meisturum. Grindavík er af spá þjálfara og fyrirliða spáð 1. sæti í deildinni en Tindastól er spáð í 8. sæti.  Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:15.

Körfuknattleiksdeildin og Ljóska, Ljósmyndaklúbbur Skagafjarðar, ætla að efna til ljósmyndakeppni meðal meðlima klúbbsins og munu þátttakendur í keppninni mynda í gríð og erg á heimaleikjum vetrarins. Bestu myndir hvers leiks fara síðan í pott og verður besta körfuboltaljósmynd tímabilsins valin eftir tímabilið.

Skotleikir verða á milli leikhluta í vetur og í hálfleik munu yngri flokkar Tindastóls kynntir með þeim hætti að þeir koma inn á völlinn, skipta í lið og spila í nokkrar mínútur fyrir framan áhorfendur. Þar gefst tækifæri til að sjá leikmenn framtíðarinnar. 

Þá verður leikmannakynningin með nýstárlegu sniði sem ætti að gleðja áhorfendur og ekki síst yngstu iðkendurnar.

Einnig er stefnt á að bjóða upp á lifandi tónlist fyrir einhverja heimaleiki í vetur.

Yngri flokkarnir

9. flokkur drengja keppir á fjölliðamóti á Hvammstanga á laugardag og 10. flokkur stúlkna verður á móti á Akureyri um helgina. Þá á unglingaflokkurinn leik á laugardag kl. 16 á móti Laugdælum.

Þá er rétt að minna á körfuboltaskólann sem verður á sunnudagsmorguninn, kl.10.10 fyrir 6. bekk og yngri og kl. 11.50 fyrir 7. bekk og eldri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir