Tindastóll kynnir körfuboltabúðir á Króknum í ágúst
Körfuknattleiksdeild Tindastóls er ekki af baki dottin og kynnir nú Körfuboltabúðir Tindastóls sem verða haldnar á Sauðárkróki dagana 11.-16. ágúst næstkomandi. Búðirnar eru hugsaðar fyrir leikmenn á aldrinum 9-18 ára (fædda á árunum 2002-2011) og bæði drengi og stúlkur. Yfirþjálfari Körfuknattleiksbúða Tindastóls verður Baldur Þór Ragnarsson.
Að auki hafa þeir Finnur Freyr Stefánsson, Isreal Martin og Árni Eggert Harðarson boðað komu sína í búðinar en fleiri nöfn þjálfara sem kenna munu í körfuboltabúðunum verða kynnt bráðlega.
Lögð verður áhersla á þjálfun í grunnatriðum leiksins og veita leikmönnum forskot þegar æfingar hefjast hjá þeirra félögum.
Gisting verður í 2, 3 og 4 manna herbergjum með baði á Hótel Miklagarði sem er staðsett í seilingarfjarlægð frá Síkinu, körfuboltahöllinni á Króknum. Morgun-, hádegis- og kvöldmatur verður á veitingastaðnum Grettistaki sem er staðsettur á hótelinu.
Verð og nánari upplýsingar verða birt síðar og fyrirvari er settur um að samkomubann og aðrar hindranir verði ekki til staðar. Fyrirspurnir berist á netfangið budirtindastoll@gmail.com
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.