Tindastól spáð í úrslitakeppni

kalliTindastóli er spáð 8. sætinu í Iceland Express-deildinni í vetur af forráðamönnum og þjálfurum liðanna sem þar spila. Karl Jónsson þjálfari liðsins er nokkuð sáttur við þessa spá.

-Okkar markmið er skýrt að við ætlum okkur að komast í úrslitakeppnina og að því leytinu til er þessi spá raunhæf og miðað við okkar áætlanir, segir Karl. Hann tekur þó fram að það taki liðið tíma að slípa sig endanlega saman, þar sem Ricky Henderson, bandaríkjamaðurinn í liðinu, sé ekki kominn til landsins. –Þetta er búin að vera sorgarsaga með þennan leikmann, ýmsar óvæntar uppákomur orðið og staðan er sú að við náum honum ekki inn fyrir fyrsta leik á föstudaginn. Ég á þó von á því að hann verði kominn fyrir leikinn í Njarðvík á sunnudaginn en þá kemur hann beint í þann leik, án þess að vera búinn að æfa nokkuð með okkur, segir Karl.

Fyrsti leikur liðsins í IE-deildinni verður hér heima á föstudaginn og segir Karl mikinn spenning vera kominn í hópinn. –Við höfum æft gríðarlega vel síðan í sumar og menn ættu að vera komnir í gott líkamlegt stand, sem er forsendan fyrir því að góðir hlutir geti gerst. Þetta er frábær hópur, góður mórall og mikil barátta og læti á æfingum. Þó okkur vanti mikilvægan póst í leiknum á föstudaginn get ég lofað fólki því að menn fara inn á völlinn til að standa sig og berjast til síðasta manns, við höfum nægan mannskap sem er tilbúinn í slaginn, sagði Karl að lokum.

Leikurinn hefst kl. 19.15 á föstudag í Síkinu á Sauðárkróki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir