Tímamótum fagnað með söngveislu
Kaupfélag Skagfirðinga fagnar 130 ára afmæli um þessar mundir en það var stofnað á Sauðárkróki þann 23. apríl árið 1889 þegar tólf menn úr Skagafirði og Bólstaðarhlíðarhreppi komu saman í þeim tilgangi að stofna til þessa félagsskapar.
Óhætt er að segja að félagið beri aldurinn nokkuð vel og hafi eflst og dafnað og er nú langstærsta kaupfélag landsins. Í tilefni tímamótanna var boðið til söngskemmtunar í Miðgarði sl. sunnudag þar sem tveir skagfirskir kórar komu fram, Kvennakórinn Sóldís og Karlakórinn Heimir, að viðstöddu fjölmenni.
Í máli þeirra Bjarna Maronssonar, stjórnarformanns kaupfélagsins, og Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra, kom fram að þar sem söngurinn tengist skagfirsku lífi órjúfanlegum böndum hafi ekki þótt annað við hæfi en að hefja hátíðarhöld í tilefni afmælisins með söngveislu því þar sem einn Skagfirðingur væri, þar væri söngur, en þar sem tveir eða fleiri væru, þar væri kór. Gáfu þeir jafnframt fyrirheit um að afmælisins yrði minnst með fleiri viðburðum síðar á árinu.
Báðir fluttu kórarnir velheppnaða söngdagskrá og í hlé voru bornar fram léttar veitngar í boði Mjólkursamlags og Kjötafurðastöðvar KS.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.