Til varnar umhverfisráðherra
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur orðið ómaklega fyrir barðinu á félögum sínum í meirihluta umhverfisnefndar Alþingis við afgreiðslu á Náttúruverndaráætlun. Meirihluti nefndarinnar virðir að vettugi álit og vilja ráðherrans í sanngjörnu máli, sem að óreyndu hefði ekki mátt ætla að nefndarmeirihlutinn legðist gegn.
Forsagan er þessi. Oftsinnis hef ég gagnrýnt að í Náttúruverndaráætlun skuli ekki vera gert ráð fyrir hlutverki Náttúrustofanna út um landið. Þessum litlu ríkisstofnunum er að lögum ætlað mikilvægt hlutverk sem falla mjög að viðfangsefni Náttúruverndaráætlunarinnar. Engu að síður hafa þessar mikilvægu rannsóknarstofnanir á landsbyggðinni verið algjörlega sniðgengnar í Náttúruverndaráætlunum og er svo nú einnig í þeirri áætlun sem Alþingi hefur til meðferðar. Hvergi er stafkrók að finna varðandi Náttúrustofurnar í tillögu að nýrri Náttúruverndaráætlun. Að þessu vék ég meðal annars sem oftar í umræðu um áætlunina þegar hún kom fyrir Alþingi 17. nóvember sl.
Jákvæð viðbrögð ráðherra
Skemmst er frá því að segja að umhverfisráðherra brást afar vel og jákvætt við og sagði: „Ég þakka sérstaklega hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa ádrepu um Náttúrustofurnar og mikilvægi þeirra því að ég sannarlega deili þeirri upplifun og þeirri skoðun að mikilvægi þeirra er gríðarlegt. Þetta eru ekki bara umsagnaraðilar heldur ekki síður mikilvægar burðarstoðir oft og einatt í sveitarfélögunum.“
Enn fremur sagði ráðherrann í ræðu sinni: „Ég mun ekki gera neitt annað, …. en styðja og standa með þingmanninum í því að Náttúrustofurnar hafi meiri hlutverk og ef það er verkefni sem umhverfisnefnd getur tekið að sér í umfjöllun og meðförum varðandi náttúruverndaráætlun sé ég ekkert því til fyrirstöðu, þ.e. að samstarfið við náttúrustofurnar sé aukið og styrkt að því er varðar framkvæmdina á Náttúruverndaráætlun og að það sérstaklega nefnt í þingsályktuninni þegar hún verður afgreidd út úr þinginu finnst mér bara eðlilegt og jákvætt.“
Frekleg árás
Þetta er eins skýrt og það getur verið. Ráðherrann er mér sammála um að auka hlutverk og vægi Náttúrustofanna í Náttúruverndaráætluninni. Því hefði mátt ætla að meirihluti nefndarinnar tæki tillit til þessara eindregnu sjónarmiða ráðherrans. En það fór ekki svo. Meirihluti umhverfisnefndarinnar sem er skipaður þingmönnum úr Vinstri hreyfingunni grænu framboði og Samfylkingunni virðir þessi sjónarmið að vettugi; fótumtreður vilja ráðherrans og víkur hvergi að þessari stefnumótun ráðherrans.
Náttúrustofurnar eru grónar og góðar vísindastofnanir á landsbyggðinni. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt á því sviði sem þær starfa. Þær eru líka einn af hornsteinum þeirrar uppbyggingar á vísinda og rannsóknarsviði, sem hefur átt sér stað utan höfuðborgarsvæðisins. Það hefur hins reynst nauðsynlegt að berjast mjög fyrir tilveru þeirra. Einn liður í því að treysta forsendur þeirra, væri að ætla þeim meira hlutverk í Náttúruverndaráætlunum, enda falla þær algjörlega að því lögformlega hlutverki sem stofunum er ætlað. Þess vegna vekur furður sú afstaða meirihluta umhverfisnefndar, að sniðganga þessar mikilvægu vísindastofnanir á landsbyggðinni þegar kemur að því að móta verklag við Náttúruverndaráætlanir.
Alþingi þarf að brjóta þetta á bak aftur
Því verður að óreyndu ekki trúað að meirihluti nefndarinnar hafi ekki skoðað þá umræðu sem fram fór þegar tillaga til nýrrar Náttúruverndaráætlunarvar rædd á Alþingi 17. nóvember sl. Það hreinlega getur ekki verið annað en að meirihlutanum hafi verið kunnugt um sjónarmið umhverfisráðherra. Þeim furðulegra er að ekki sé vikið einu orði að þessum þætti málsins í nefndaráliti meirihlutans.
Þetta er ekki hægt að skoða öðruvísi en sem freklega árás meirihluta umhverfisnefndar Alþingis á ráðherrann og einbeittan vilja til þess að sniðganga stefnu sem ráðherrann setti fram um aukið vægi Náttúrustofanna og sem vitnað var hér til að framan. Þess vegna er full ástæða til að bregðast við og í framhaldinu láta á það reyna á Alþingi hvort ekki sé meirihluti fyrir stefnu okkar Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, þannig að brjóta megi á bak aftur ofríki nefndarmeirihlutans.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.