Þvottekta laxaleður hjá Sjávarleðri
Gærusala er að lifna eftir frekar erfiða tíma undanfarið en verðin eru léleg, segir Gunnsteinn Björnsson hjá Atlantic Leather á Sauðárkróki en að hans sögn er verðfallið meira en gengisfallið.
-Menn eru að jafna sig eftir óvissuna eftir hrunið en eru hræddir við að taka áhættu, segir Gunnsteinn en hann er nýkominn af sýningu í París og er að undirbúa aðra för til Ítalíu . -Hágæða leður var meginstefið í París og þar er einmitt okkar styrkur, við leggjum áherslu á leður í hæsta gæðaflokki og stöðuga vöruþróun og nýjungar.
Hafin er sútun á mokkaskinnum aftur en sú framleiðsla hefur legið niðri frá árinu 2003 og að sögn Gunnsteins eru margir kaupendur sem fagna því þar sem íslensk mokkaskinn þykja framúrskarandi góð.
Atlantic Leather tók þátt í tilraunaverkefni með sútun á smálambaskinnum en alls voru um 2000 skinn sútuð í ár. Vel gekk að fá bændur til að taka þátt í verkefninu en skinnin eru af þeim lömbun sem létust skömmu eftir eða við burð. -Frágangur skinnanna var ásættanlegur en í einhverjum tilfellum þarf að laga fyrirristuskurðina, segir Gunnsteinn og telur að ekki ætti að vera flókið mál að fá tíuþúsund skinn í verkefnið ef bændur fást til að taka þátt í því.
Þá er mikil gróska í fiskleðri en það er í tísku í dag að blanda fiskleðri saman við önnur efni. -Þvottekta laxaleður er auðvitað ekkert annað en bylting í notkun þess í fatahönnun, segir María Magnúsdóttir skóhönnuður og nýr sölumaður Sjávarleðurs.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.