Þuríður í Delhí dagur 55

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Ég er ein í kotinu, dandalast við nauðsynleg morgunverk og tek til morgunverð, brauð með sardínum og kaffi, í sardínum eru fullt af efnum sem ég hef gott af að fá og þar að auki eru þær próteinríkar og svo finnst mér þær góðar. Meðan ég borða verður mér hugsað til ömmu Þóru frá Svínafelli, hún hefði orðið hundarað og eins árs í dag, væri hún á lífi, sem hún hefði allsekki viljað. Ég sakna hennar á hverjum degi og vona svo sannarlega að hún megi vera að því að líta til mín öðru hvoru þessi sterka kona og mín mikla vinkona.

 

 Ég held ég hafi kviðið fyrir því frá því að ég var barn að amma færi úr þessu jarðlífi, svo kom að því og það varð mér mikið áfall þó að mér þætti vissulega vænt um að hún fengi að fara áður en hún yrði alltof gömul, enda búin að skila sínu og vel það hérna megin.

Mér tekst að koma mér niður í endurhæfinguna án þess að gleyma lyklum, sokkum og vatni. Nú er vinstri fóturinn á mér með eitthvað vesen, mér tekst varla að hreyfa hann þegar ég reyni að draga hann til á dínunni, en hins vegar gengu hnéæfingarnar vel, svona er þetta stundum. Ég er farin að geta sveiflað hnjánum yfir á hina hliðina þegar ég reyni frá hægri til vinstir, það eru framför og sýna að einhverstaðar eru vöðvar að styrkjast. Ég fór á göngugrindinni út á gólf, þetta gekk miklu betur en í gær og nú var hægri fóturinn alveg með í för, hægt og rólega mjakaðist ég út úr salnum en svo ákvað Shivanni að þetta væri orðið nóg, hún vildi ekki ofþreyta mig. Mér fannst ég svo sem ekkert þreytt og ég tók miklu minna á með höndunum nú en oft áður, en þetta var örugglega skynsamlegt af henni og með það fór ég upp. Uppi vildi ræstifólkið endilega komast til að þrífa inni hjá mér,auðvitað leyfði ég það. Á meðan ég beið fyrir utan hitti ég dr. Ahsish, hann spurði að venju hvort ég finndi breytingar og hvort mér finndist ég sterkari. Ég sagði honum að mér hefði ekki tekist að hreyfa vinstri fótinn eins og áður. Engar áhyggjur sagði hann þetta er eðlilegt og hann fer aftur að virka fljótlega. Stundum kemur smá afturkippur en svo koma hreyfingarnar oftar en ekki bara sterkari inn. Við ræddum um meðferðina og hann sagði mér að árangur hvers og eins væri misjafn eins og ég hef áður komið inná. Sumir fá góðan bata meðan aðrir sem eru með skaða á sama svæði fá lítið sem ekkert. Því miður getum við ekki enn sagt til um hvað veldur þessu sagði dr. Ashish og þess vegna er ekki hægt að lofa fólki árangri en vonandi verður hægt að segja fólki meira um batahorfur í framtíðinni. Þessi meðferð er greinilega enn á rannsóknarstigi. Ég hef séð það sjálf að batinn er misjafn hér inni, ég ber mig mest saman við þau sem eru lömuð og ég hef hitt hér inni tvo einstaklinga sem segjast ekkert hafa fengið til baka nema góða þjálfun, meðan aðrir einstaklingar sýna ótrúlegar framfarir. Seinni partsæfingin gekk þokkalega og eftir hana ákvað ég að kíkja aðeins út, var svona að spá í að ná mér í smá sólbrúnku áður en ég færi heim. Sá sem hleypti mér út sagði með skelfingarsvip að það væri 4o stiga hiti úti, ég ákvað að láta slag standa. En þvílíkur hiti, eftir fimm mínútur var mér ljóst að þetta var ekki skynsamlegt og líklega væri ég á góðri leið með að steikja í mér heilann þannig að ég dreif mig inn og upp í rúm með bók. Ég ákvað að hvíla mig rækilega og vera hress fyrir æfingarnar á morgun því þá ætlaði ég aldeilis að taka á þvÍ. Um kvöldið hafði litla systir mín samband, hún fór að tékka á fluginu okkar mömmu heim og komst þá að því að hvorug okkar var bókuð kl. 13 þann 30. sept. frá London til Keflavíkur. Hvaða bull sagði ég, ég er með miðann og lét hana hafa númerið. Eftir mikið þref við fólkið hjá Icelandair komst hún að því að ég var bókuð með kvöldvélinni, ég trúði þessu ekki, hvað í ósköpunum hafði nú gerst. Ég var allavega með það á hreinu að þetta var eini miðinn sem ég hafði. Hún reyndi að fá fluginu mínu breytt úr kvöldvélinni í hádegisvél en það átti að kosta 45.000 kr. aukalega. Þetta var allt tómt rugl, að endingu fann konan hjá Icelandair það út að ég hefði sjálf breytt miðanum mínum þann 19. maí sl. og borgað fyrir þá breytingu 10.000 kr. hvað mér hefur gengið til með þessu er mér hulin ráðgáta og eina staðfestingin sem ég hafði í höndum var fyrir hádegisflugi. Það verður fróðlegt að sjá á morgun hvernig þetta fer. Ég get samt ekki hugsað mér að bíða heilan dag á flugvellinum í London og komast svo kannski ekki heim fyrr en um miðnætti. Mikið vona ég að þetta gangi allt saman upp.

Mamma og Sigurbjörn komu alsæl og sólbrunnin úr ferðinni til Taj Mahal kl. að ganga tíu, svoldið langt ferðalag en þau lögðu af stað fyrir sex í morgun.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir