Þuríður í Delhí dagur 47 + 2 Video

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Ekkert væl og volæði í dag, það lá meira að segja við að ein systir mín skammaði mig fyrir að setja þetta svartsýnisþrugl á netið. Þannig að í dag skal verða betri dagur.

Ég hafði svoldið gaman af kommenti frá frænda mínum sem sagðist hreint ekki hafa átt von á að sjá mig brokkandi á Króksgötunum í vetur eins og unghryssu á vordegi. Vildi óska að það ætti einhverntíman eftir að gerast, held þó að ég sé að verða of gömul til að vera unghryssa.

Ég fór í æfingarnar og mamma fylgdist grannt með, engin ný hreyfing sleppur fram hjá hennar arnaraugum, hún er þess fullviss að dag frá degi sé sjáanleg breyting. Shivanni segir að hún finni hreyfingu niður í ökkla þegar ég er að reyna að hreyfa tærnar en sú hreyfing nái ekki að hreyfa tærnar, það skal koma þó seinna verði.

Ég fór á göngugrindina og mér gekk alveg þokkalega held ég, mér tókst að dragast á grindinni út úr salnum, en þar neituðu axlarvöðvarnir að taka þátt í þessum skrípaleik lengur enda eru þeir ekki gerðir fyrir labb. Síðan fór ég á göngubrautina og þar finnst mér ég vera orðin nokkuð örugg.

Seinni partinn ákváðum við að skreppa í Dillí Hat aftur, þar var allt orðið breytt síðan síðast, nýtt fólk var að koma sér fyrir í sölubásunum og á nokkrum stöðum lágu menn flatir og hrjótandi í tómum básnum, greinilega verið að hvíla sig fyrir næstu átök. Sumir  sölumennirnir voru þó vel vakandi.

Ég álpaðist til að gefa færi á mér í einum básnum, ætlaði reyndar bara að skoða, en guðminngóður, ég skildi vesalings sölumanninn eftir á hnjánum með mölbrotið hjarta, að því er hann sagði. Ég vildi nefnilega ekkert kaupa, hann var einfaldlega svo rosalega ágengur, ég sat í silki- og kasmír sjalahafi því hann tætti upp hverja pakkninguna á fætur annarri til að sýna mér og á endanum varð þetta bara of mikið.

Ég er svo mikill íslendingur í mér að ég vil bara fá að skoða í friði fyrir brjáluðu sölufólki. Mamma var reyndar búin að hvessa sig við hann aðeins og þá dró aðeins niður í kalli en eftir andartak var hann kominn í sama haminn. Það er enn alveg hrikalega heitt hérna, standard 35 stig og sól er okkur norðannepjufólki þraut þannig að við hreyfum okkur ekki út fyrr en seinni part og undir kvöld.

Þegar við komum inn á herbergi aftur eftir markaðsferðina  tók á móti okkur þessi líka klóakfnykurinn, eitthvað var greinilega að gerast inn á baði ályktuðum við. Ég þurfti að nota klósettið og harkaði af mér því lyktin var ekkert sérstök, ég komst að því þegar ég færði mig að stólnum og yfir á settið hvers vegna lyktin var, því ég einfaldlega var nærri farin á hliðina með klósettinu en tókst að grípa í vegghöldu og rétta mig og klósettið af aftur. Helv… var alveg laflaust ég var greinilega búin að hamast svo rosalega á klósettinu að allar gólfskrúfurnar höfðu gefist upp, ansk… drasl tautaði ég þar sem ég reyndi af öllum mætti að laumast af klósettinu þannig að það færi nú ekki með mér í stólinn.

Næst á dagskrá  var að fá þetta viðgert og það gerist nú ekki svona einn tveir og þrír hérna. Þannig að þangað til drögum við mamma djúpt inn andann áður en við opnum þarna inn og svo er bara að lauma sér á settið án þess að það taki eftir og það er sko ekki minn stíll. Að lokum læt ég fylgja nokkur orð sem gamall vinur minn sendi mér í gær, þau allavega hittu mig hárfínt í volæðið ) takk, takk.

Einu sinni var hið mögulega á stærð við vasaklút og allt sem mannlegur máttur gat áorkað rúmaðist þar innan hans.  Þegar menn fóru síðan að véfengja mörkin sem þeim voru sett og takast á við sínar takmarkanir, stækkaði vasaklúturinn til mikilla muna og hlutir sem áður þóttu óhugsandi, eru sjálfsagðir í dag.   Þú ert ein af þeim sem vinnur að því að færa út mörk hins mögulega og ég er viss um að margir munu njóta góðs af baráttu þinni.  Skrefin eru mörg og smá og þau þarf að taka eitt og eitt í einu.

http://www.youtube.com/watch?v=leiSlHNrQwM

http://www.youtube.com/watch?v=rgMBVm2KNTg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir