Þuríður í Delhí dagur 46
Áfram fylgjumst við með Þuríði og ferð hennar til Indlands. Feykir.is minnir góðfúslega á söfnunarreikning Þuríðar Hörpu en hann má finna á heimasíðu hennar www.oskasteinn.com
Þetta þokast, það gerir það. Var í dag bæði þreytt og illa upplögð, svona eru sumir dagar, hefði verið sælust með að liggja bara og sofa, mig langaði ekki til neins. Ég druslaðist í endurhæfinguna og ég veit nú ekki alveg hvað ég var að monta mig af því að ganga vel á göngugrindinni, mér gekk alla vega ekkert sérsaklega vel í dag. Grindin var enn of há fyrir mig þannig að ég var alveg búin í öxlunum eftir að hafa hangið á grindinni og ríghaldið mér. Ég er óörugg á henni og gólfið svo sleipt, fæturnir runnu í sitthvora áttina ég var bókstaflega eins og belja á svelli, svo hafði ég áhyggjur af því að ef ég dytti þá myndi ég stórslasa og kremja smávaxna aðstoðarfólkið mitt. Fljótlega áttaði Shivanni sig á að þetta var ekki alveg að virka hjá mér þannig að hún heimtað stólinn svo ég gæti sest. Það sem eftir var af tímanum fékk ég að dragast áfram á göngubrautinni. Eftir hádegi var aftur æfing og var ég þeirri stund fegnust þegar hún var á enda. Ekki gerði ég fleira þennan daginn, ákvað að láta það eftir mér að liggja í rúminu en því miður gat ég ekki sofnað – held ég þjáist bara af almennum leiða og kannski svolítilli depurð sem er alls ekki passandi í öllu þessu sólskini. Systir mín sendi mér skilaboð um að ég og mitt fylgdarlið værum boðin í mat þegar við kæmum til landsins, steiktur fiskur, nýjar kartöflur, laukur í bræddu smjöri og svo pönnsur með ís á eftir. Það þurfti nú ekki meira til að létta mér lund og sofnaði útfrá allskonar hugsunum um mat, venjulegan íslenskan mat. Ótrúlegt hvað maður er nú vitlaus hvort ætli þetta kallist matarást eða bara græðgi. Svo hef ég verið að hugsa hvort ég sé búin að vera of bjartsýn í skrifum mínum, hvort fólk búist við að ég geti sýnt listir mínar þegar ég kem heim, lyft fótunum sitjandi í hjólastólnum og sparkað þeim í allar áttir og svoleiðis kúnstir. Ég ætla því að leiðrétta það strax, ég get ekki hreyft legg né lið þegar ég sit í stólnum, til þess að framkvæma einhverja hreyfingu þarf ég að liggja á bekk og vera í stöðu sem auðveldar þá hreyfingu sem ég á að framkvæma. Ég sé ekki enn neina vöðva hnyklast til en…. ég finn vöðvasamdrátt og þá sérstaklega á innanverðum lærunum, ég finn líka vöðvasamdrátt í kálfum og mjöðmum. Shivanni segir þetta góða byrjun og já, ég er nokkuð sátt við þessa byrjun, að sjálfsögðu vonast ég eftir meiru og ég veit að eftir að heim er komið verð ég að halda vel áfram með æfingarnar, því aðeins þannig styrki ég það sem komið er.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.