Þuríður í Delhí dagar 49 – 51
Mamma var bara komin á fætur fyrir allar aldir, alla vega löngu áður en ég nennti að opna augun, ég hlustaði á hana læðast um og nennti ekki að segja henni að ég væri vakandi, hún þyrfti ekki að læðast. Hávaðinn á ganginum varð þó til þess að ég ákvað að hætta að þykjast sofa, greinilegt að ég er ekki lengur ein á þriðju hæðinni held bara að það sé fólk í öllum fjórum herbergjunum núna.
Morgunæfingin var svoldið öðruvísi en ég hafði búist við, þegar ég kom niður var dr. Geeta stödd þar að skoða hvernig fólkinu gengi. Hún heilsaði mér strax og spurði mig hvað væri nýtt, mér vafðist tunga umtönn og sagði svo að allt væri nýtt en ég héldi að það nýjasta væri kannski aukinn styrkur í baki og mjöðmum. Hún bað Shivanni um að byrja á göngugrindinni hún vildi sjá mig í henni. Það gekk ágætlega en mér fannst samt ekki ganga nógu vel, var að glíma við spasma sem settu mig svoldið út af laginu. Dr. Geeta sagði Shivanni að þetta væri frábær árangur, sjúkraþjálfinn minn ljómaði og varð hálf óðamála við að útskýra þær breytingar sem hún hafði séð. Dr. Geeta sagði henni að mér gengi greinilega vel með göngugrindina þannig að hún vildi að ég fengi meiri áskorun, Shivanni skildi því láta taka efsta partinn af spelkunum, sem sagt mjaðma og rassstuðninginn og láta mig labba svo á göngubrautinni, en bara stutt í einu til að byrja með. Þannig að ég kláraði allar æfingarnar líka þær sem átti að gera eftir hádegi þarna um morguninn því eftir hádegi átti ég að mæta í spelkugöngu án mjaðmastuðnings. Ég ætlaði að fara beint í húsvörðinn eftir æfinguna og krefjast þess að fá pípara strax, en þar sem lyftan var biluð sat ég niðri í sal til klukkan að verða eitt, eða þangað til aðstoðarmennirnir ákváðu að bera mig upp, guði sé lof að það gerist ekki oft því þeir allir þrír voru alveg búnir á því þegar þeir voru búnir að koma mér upp á groundfloor. Við mamma ákváðum að fara yfir á hótel og fá okkur hádegissúpuna þar, þar sem lyftan var enn biluð. Mamma náði tali af húsverðinum sem var annar en í gær og svo Jody þar sem hann skildi ekkert hvað mamma var að tala um. Jody gat komið honum í skilning um að enn vantaði píparann, húsvörðurinn vildi þá fá að sjá hvað um væri að ræða, díssúss hvað þetta ætlar að verða langdregið. Allavega mamma tók sýningartúr inn á klósettið eina ferðina enn og lofaði húsvörðurinn að redda þessu strax, með það fórum við yfir á hótel. Þar var lyftan líka biluð, það var nú farið að síga í mig, dettur þessu fólki hér allsekki í hug að vera með vararafstöð á þessum lyftum því líklega hefur örstutt rafmagnsleysi hér í morgun sett lyfturnar út af laginu. En ok ég var borin upp og svo niður aftur, sem betur fór var lyftan á hjúkrunarheimilinu komin í gang þegar við komum yfir. Húsvörðurinn sagði að píparinn kæmi kl. tvö þannig að Sigurbjörn tók klósettvaktina upp á herbergi þar sem þeir koma ekki inn á herbergi nema einhver sé þar inni þ.e. ég eða mitt fylgdarfólk. Ég fór á spelkurnar mjaðmalausu, mér fannst eins og rassin á mér léki lausum hala um alla braut en ég verð þó að viðurkenna að þetta gekk mun betur en síðast þegar ég prófaði sem var fyrir 2 vikum en þetta var erfitt og þó mér finndist þetta ekkert rosa erfitt þá var bara eins og neðri parturinn hætti að virka þegar ég var búin að fara brautin áfram og svo til baka út á hlið, eftir það varð erfiðara að reyna að hreyfa fæturna þannig að ég fékk stólinn enda hafði dr. Geeta fyrirskipað að ég yrði stutt í einu allavega til að byrja með. Píparinn var ekki kominn þegar við komum upp þannig að ég ákvað að láta húsvörðinn heyra það og hjólaði af stað, þegar lyftan opnaðist á jarðhæðinni stóð húsvörðurinn fyrir utan ég kvæsti á hann að enn væri enginn pípari sjáanlegur, hann sagðist myndi hringja strax og píparinn myndi verða komin kl. þrjú svo lokaðist lyftan en ekkert gerðist, ég lamdi í hurðina til að láta vita að ég væri þarna inni, ég heyrði að húsvörðurinn sagði mér að bíða róleg og sá fyrir mér næstu tvo tímana innilokuð í lyftu, svo varð myrkur. Rafmagninu var slegið inn aftur og húsvörðurinn vippaði sér inn í lyftuna til mín, taldi greinilega öruggara að vera með ef lyftan stoppaði einhverstaðar á leiðinni en það slapp allt og ég komst upp aftur. Um þrjú kom svo píparinn og húsvörðurinn með honum og viðgerðin hófst, ég steinsofnaði á meðan þeir voru að þessu en um fimmleytið var viðgerðinni lokið. Ég ákvað að halda upp á viðgerðina með því að liggja í rúminu þangað til á morgun og það á ég býsna auðvelt með. Kvöldið endaði ég á að horfa slefandi á þátt með Nigellu, mikið rosa væri nú margt öðru vísi hér ef hún væri kokkur.
Helgin – 50. og 51. dagur
Laugardagsæfingin gekk bara nokkuð vel, ég riða um á þessum hálfu spelkum og reyni að ná einhverju jafnvægi og stjórnun á sporin mín. Eftir að hafa þvælst eina ferð áfram og svo fram og til baka á hlið er ég búin að vera og fæ stólinn. Við óskum Shivanni góðrar helgar og förum upp á herbergi. Ákveðið var að fara í Ambiance mollið í Gurgaon. Þegar þangað var komið tók á móti okkur þvílíkur hávaði. Mollið var náttúrlega fullt af fólki og svo var einhver söludagskrá í gangi þar sem fólk hrópaði sig hást í míkrafóna undir rosalegum tónlistarhávaða. Við þvældumst á milli búða og fengum okkur svo að borða á Pizza Hut. Ég komst að því að best var að vera í lyftunni þar var hávaðinn minnstur, ég er orðin sannfærð um að Indverjar hafa annarskonar heyrn en við Evrópubúar. Allavega virðast þeir þola alveg ótrúlegt hávaðaáreiti mjög vel og sækjast eftir því. Við komum heim um kvöldið og ótrúlega var nú gott að halla sér með bók í hönd og sofna svo út frá henni. Á sunnudeginum opnuðum við ekki augun fyrr en um hálfellefu en þá tók húsvörðurinn upp á þeim óskunda að hringja í okkur, mamma skreyddist í síman og hlustaði smá stund á óskiljanlegt babl og sagðist svo bara ekki skilja neitt. Maðurinn á hinum enda línunnar lét sig ekki fyrr en hann var búin að koma henni í skilning um að hann væri með matarpöntun og hvort við ætluðum að fá mat um kvöldið og á hádeginu daginn eftir, þetta var fljótt afgreitt mamma sagði nó.
Sigurbjörn bauð okkur í útsýnistúr um Delhí eftir hádegið, sem reyndar endaði með víðtækri leit að Lótusblómaolíu. Fyrst ætluðum við að skoða Lótushofið en það var lokað, alltaf lokað á sunnudögum sagði vopnaður vörðurinn. Fólk hékk samt utan á girðingunni til að berja Lótushofið augum. Við sáum það úr bílnum. Næst var brunað að kíkja á Qudar Minar, sem eru minjar um hof eða mosku sem bæði múhameðstrúarfólk og hinduatrúarfólk gat komið sér saman um að nota. Þar er líka heljarturn sem hlaðin var upp á 12 öld að skipan kóngs sem uppi var þá, turninn notuðu prestar, en þeir predikuðu úr talsverðri hæð í honum til að ná eyrum fólks sem hópaðist í moskurna/hofið. Turninn var líka notaður sem sólúr og ef menn fljúga yfir hann lítur hann út eins og lótusblóm séð ofan frá. Þetta er ótrúleg listasmíð, allur útflúraður og skreyttur. Við höfðum með okkur leiðsögumann sem sagði okkur frá öllu sem bar fyrir augu, að lokum lét hann okkur vita af markaði þar sem indverjar versluðu og þar fengist líklega lótusblómaolían sem mamma er að leita að. Við brunuðum þangað, þar fékkst olían alveg rándýr á pínulitlum flöskum, þar var þeim bent á annan stað sem farið var á næst. Ekkert fékkst þar, en okkur leiðbeint áfram í rosaflotta verslun með ilmi og fleira, þar fékkst olían ekki heldur en áfram var okkur leiðbeint í verslun hjá múhameðstrúarmönnum. Þar fékkst olían á sæmilegu verði og bæði var þjónustan góð og verslunin flott og síðast en ekki síst mamma var ánægð. Tíminn var útrunninn hjá leigubílnum þannig að ekki var um annað að ræða en drífa sig heima á hjúkrunarheimilið, við sem höfðum ætlað að borða úti enduðum í núðlusúpu upp á herbergi að hætti mömmu, og já það var bara gott.
Á morgun á ég að fara í sprautu á hitt sjúkrahúsið, mæta kl. eitt og koma aftur heim um kvöldið. Ég er hætt að kvíða fyrir þessum sprautum, mér hefur hingað til ekki liðið neitt illa af þeim og fer því varla að byrja á því úr þessu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.