Þurfum alla þá hjálp sem við getum fengið
Í eðlilegu ástandi hefði boltinn verið farinn að rúlla sem aldrei fyrr enda fyrsti leikur karlaliðs Tindastóls á laugardaginn eftir viku gegn Hetti/Hugin, samkvæmt upphaflegu plani. Stólastelpur áttu að hefja sitt tímabil í Mosfellsbænum gegn Aftureldingu 6. maí. Feyki lék forvitni á að vita hvernig staðan væri á fótboltanum hjá félaginu og lagði nokkrar spurningar fyrir Rúnar Rúnarsson, formann knattspyrnudeildar Tindastóls.
Staðan er bara þokkaleg mundi ég segja. Við erum eins og öll önnur félög að berjast við ástandið í samfélaginu og allt í biðstöðu. Það er mikil tilhlökkun hjá öllum, bæði þjálfurum sem og iðkendum að komast út á völl og byrja.
COVID hefur haft mikið að segja fyrir fjárhag deildarinnar og fyrirséð að tekjur verða töluvert minni í ár en á síðasta ári. Það lá fyrir í haust að 2020 yrði erfitt en strax þá sást að fyrirtæki voru að minnka styrki og auglýsingar til félaga. Því miður hafa alltof mörg félög og deildir skuldsett sig fyrir framtíðartekjum, í raun veðsett þær.
Rekstur íþróttafélaga þarf alltaf að vera rekinn réttu megin við núllið. Það starf og þjónusta sem deildir reka er svo mikilvægt, sérstaklega fyrir minni samfélög, að má ekkert klikka þegar kemur að launagreiðslum og skuldbindingum.
Félög eru núna að leita allra leiða til að láta enda ná saman með ýmsum leiðum og beina þá helst spjótum sínum til stuðningsmanna með ýmsum fjáröflunum. Vil ég biðla til allra Skagfirðinga að taka vel á móti iðkendum þegar þeir heyra í þeim með til dæmis sölu ársmiða
Hafa einhverjar æfingar farið fram?
- Nei, það hafa engar æfingar farið fram hjá knattspyrnudeildinni síðan bann var sett við slíku. Leikmenn hafa verið að æfa hver í sínu horni, bæði þol og styrk, en þjálfarar hafa sent æfingaáætlanir á flokkana og vona ég að allir séu að fara eftir þeim því þegar banninu verður aflétt verður skammur tími í að mót byrji.
Hvernig er tilfinningin hjá þér fyrir komandi tímabil?
- Ég hef nokkuð góða tilfinningu fyrir tímabilinu. Þetta verður skrýtið tímabil að mörgu leyti en ég hef trú á því að það verði leikið töluvert þéttar en við erum vön og það er atriði sem við þurfum að bregðast við með einverjum hætti. Gætum við séð leiki í miðri viku og þá þurfum við alla þá hjálp sem við getum fengið, bæði frá vinnuveitendum leikmanna sem og bílstjóra til að keyra í leikina, en því miður hefur sá partur legið mikið á sömu aðilunum í gegnum tíðina og þurfum við virkilega að fá fleiri í lið með okkur sem hafa meirapróf og geta skotist nokkra túra í sumar.
Hvernig er staðan með erlenda leikmenn og aðra sem styrkja eiga lið meistaraflokka í sumar?
- Það er búið að semja við þrjá leikmenn í mfl. kvenna sem og einn leikmann í mfl. karla og eru þau væntanleg um miðjan maí. Fyrirhugað var að fá fleiri leikmenn í karlaliðið og búið að skipuleggja að þeir kæmu heim í febrúar og mars til að við gætum skoðað þá. Ekkert varð náttúrulega úr því og er Jamie (þjálfari mfl. karla) að skoða hvaða möguleika við höfum í því. Við stöndum frammi fyrir því að það verður ekki bara erfitt að finna húsnæði fyrir það fólk sem kemur heldur líka að finna vinnu, en í því ástandi sem er núna gæti það verið strembið.
Knattspyrnudeild Tindastóls hefur ekki og getur ekki borgað laun til leikmanna, nema í einhverju agnar smáum mæli, og því liggur allt undir því að við getum útvegað vinnu fyrir þá leikmenn sem koma, en það er algjör grunnforsenda. Það er enginn skortur á að leikmenn vilji koma hingað og spila, hvort sem það er kvenna eða karla megin, en ef forsendur eru ekki réttar þá getum við ekki klárað neitt, deildin verður ekki keyrð niður aftur í skuldafen fyrir árangur inni á vellinum, þessir hlutir verða að fara saman.
Er eitthvað búið að skoða hvernig farið verði með stóru mótin, Stúlknamót og Króksmót?
- Eins og staðan er í dag er allt óbreytt og á áætlun. Við ætlum að bíða eftir næstu fyrirmælum Almannavarna og sjá hvað þau segja. Það eru mörg félög í sömu stöðu og eru þau að tala saman hvernig hægt verður að halda mótin án þess að brjóta þær reglur sem settar hafa verið.
Að því sögðu þá höfum við verið að leita að kostanda á Stúlknamótið okkar, en Landsbankinn sem hefur stutt okkur dyggilega í gegnum árin dró sig út úr samstarfinu í vetur og þökkum við þeim fyrir það góða samstarfs sem við höfum átt með þeim í gegnum tíðina.
Hvað geturðu sagt mér af stjórn fótboltans, hefur orðið einhver breyting?
- Það varð ein breyting á stjórn, en Baldur Haraldsson kom inn í hana eftir áramót. Enn erum við að leita að fleirum til að starfa með okkur, svo ef það eru einhver áhugasöm þarna úti þá má endilega hafa samband við okkur.
Einnig er gaman að segja frá því að við slitum naflastrenginn við barna og unglingaráð núna í mars og eru þau því orðin algjörlega sjálfstæð frá rekstri knattspyrnudeildarinnar, en með því er stórum áfanga náð í framtíðarsýn deildarinnar sem tryggir rekstur á yngri flokkum þó eitthvað blási á móti í meistaraflokkum.
- Ég vil svo enda þetta á að hvetja alla til að mæta á völlinn í sumar og skapa skemmtilega stemmingu. Við förum fljótlega í að selja ársmiða til stuðningsmanna og hefur sú sala mikið að segja fyrir okkur. Einnig vill ég þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið á undaförum árum og hlakka ég til að sjá alla á vellinum í sumar.
Við höfum verið að leita eftir fólki til að starfa í meistaraflokksráðum bæði hjá körlum og konum og ef einhver hefur áhuga á því er hægt að hafa samband við okkur, margar hendur vinna létt verk. Einnig höfum við verið að vinna í að koma á fót „Fjölmiðlanefnd“ og höfum við haft samband við nokkra aðila og hafa þeir sýnt því áhuga og gæti það verið skemmtilegur vinkill á starfið í sumar.
Sjáumst hress á vellinum í sumar, ÁFRAM TINDASTÓLL!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.