Þú hefur áhrif
Nú í aðdraganda kosninganna höfum við skýrt dæmi um hve mikil áhrif markviss umræða kjósenda getur haft á stefnu og áherslur þeirra stjórnmálaafla sem nú bjóða fram í Skagafirði. Áhersla og umræða frambjóðenda um aðgengismál fatlaðs fólks er áberandi. Vænta má þess að umræðan muni skila okkur bættu aðgengi og betra samfélagi til framtíðar.
Við í K-listanum vitum, eins og dæmin sanna, að orð eru til alls fyrst. Af þeirri ástæðu höfum við ítrekað opnað á umræðu um mál sem brenna á íbúum á kjörtímabilinu sem nú er að renna sitt skeið. Við höfum beitt okkur fyrir opinni umræðu og gerð könnunar um hvort lág laun hafi áhrif á það hvort fólk velur að setjast að í Skagafirði.
Við höfum bent á þá kjaraskerðingu sem sjómenn hafa orðið fyrir vegna fækkunar frystitogara og nauðsyn þess að hlutur sjómanna ráðist af raunverulegu markaðsvirði aflans en ekki mun lægra málamyndaverði.
Við höfum þrýst á um opna umræðu um niðurskurð og framtíðarskipan Heilbrigðisstofnunarinnar.
Við höfum vakið máls á nauðsyn þess að tryggja hitaveituréttindi Skagafjarðarveitna.
Við höfum þrýst á að biðlistar eftir leikskólaplássi heyri sögunni til.
Staðreyndin er sú að að framangreind umræða hefur einhverra hluta vegna farið mjög fyrir brjóstið á kjörnum fulltrúum aukins meirihluta í sveitarstjórn, þ.e. sveitarstjórnarfulltrúum VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í stað þess að fagna umræðunni hefur verið reynt að drepa henni á dreif og þæfa mál. Við í K-listanum viljum opnari umræðu í Skagafirði um öll þau mál sem brenna á íbúum enda höfum við þá sannfæringu að hún muni leiða til farsælli lausnar fyrir almenning en sú sem fer fram í reykfylltum bakherbergjum.
Þeir kjósendur sem vilja lausnmiðaða og opna umræðu um framangreind mál ættu að setja krossinn við K á kjördag. K-listinn er óháður flokkum og fyrirtækjum og hollusta hans er eingöngu við íbúa í Sveitarfélaginu Skagafirði.
Sigurjón Þórðarson í 2. sæti á K-lista Skagafjarðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.