Þrír nýir doktorar tengdir Háskólanum á Hólum
Nýlega fóru fram þrjár doktorsvarnir við Háskóla Íslands sem áttu það sammerkt að doktorsefnin tengdust Háskólanum á Hólum. Þetta voru þær Ragnhildur Guðmundsdóttir, Hildur Magnúsdóttir og Agnes-Katharina Kreiling en þær eiga þaðsameiginlegt að rannsóknir þeirra snúa að mikilvægum áður ókönnuðum þáttum í lífríki og vistkerfi Íslands og niðurstöður þeirra leggja grunn að áframhaldandi rannsóknum til upplýstrar ákvarðanatöku.
Á heimasíðu Háskólans á Hólum segir: „Ragnhildur Guðmundsdóttir reið á vaðið og varði ritgerð sína 9. október. Í rannsóknum sínum lagði Ragnhildur áherslu á að skilja útbreiðslu örvera í lindum á Íslandi og hvernig þær tengjast grunnvatnsmarfló Crangonyx islandicus. Leiðbeinandi Ragnhildar var Snæbjörn Pálsson prófessor (Háskóla Íslands) en í doktorsnefnd hennar voru Viggó Þór Marteinsson, sérfræðingur, (Matís) og Bjarni K. Kristjánsson, prófessor, (Háskólanum á Hólum). Andmælendur hennar voru Dr. Owen S. Wangensteen (UiT, Noregi) og Oddur Þór Vilhelmsson, prófessor (Háskólanum á Akureyri).
Næst varði Hildur Magnúsdóttir ritgerð sína 14. október. Doktorsverkefni Hildar hafði að aðalmarkmiði að varpa ljósi á stofnvistfræði beitukóngsstofna í Norður Atlantshafi, byggt á greiningu útlitsbreytleika, erfðabreytileika og samspili þessara tveggja þátta. Leiðbeinendur voru Snæbjörn Pálsson prófessor (Háskóla Íslands), Erla Björk Örnólfsdóttir rektor (Háskólanum á Hólum) og Zophonías O. Jónsson prófessor (Háskóla Íslands), og að auki í doktorsnefnd sat Kristen Marie Westfall (DFO, Kanada). Andmælendur hennar voru Dr. Karl Gunnarsson (Hafró) og Rémy Rochette, prófessor (University of New Brunswick).
Þriðja í röðinni var Agnes-Katharina Kreiling, og varði hún ritgerð sína 19. október. Agnes-Katharina rannsakaði fjölbreytileika samfélaga smádýra í lindum og hvernig umhverfisþættir móta það í tíma og rúmi. Leiðbeinandi Agnesar-Katharinu var Bjarni K. Kristjánsson, en í doktorsnefnd hennar voru Snæbjörn Pálsson, Dr. Árni Einarsson (RaMÝ), Dr. Jón S. Ólafsson (Hafró) og Eoin O´Gorman lektor (University of Essex). Andmælendur hennar voru Stefanie von Fumetti lektor (Háskólinn í Basel) og Dr. Ben Price (Náttúrugripasafnið í London).“
Í fréttinni á Hólar.is segir ennfremur að þær hafi staðið sig frábærlega, „...bæði í námi sínu og vörnum og voru varnir þeirra hin besta skemmtun þeim sem á hlýddu.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.