Þriðja umferð Íslandsmótsins í rallý lokið

Sigurvegararnir Sigurður Bragi Guðmundsson og Aðalsteinn Símonarson
Sigurvegararnir Sigurður Bragi Guðmundsson og Aðalsteinn Símonarson

Þriðja umferð í Íslandsmótinu í rallý fór fram í Skagafirði dagana 22. og 23. júlí síðastliðinn en það var Bílaklúbbur Skagafjarðar sem átti veg og vanda að henni. Keppnin, sem er árlegur viðburður, er ávallt vinsæl hjá rallýáhugafólki enda skipulag og verklag hið besta hjá Bílaklúbbnum. Í ár voru tæplega tuttugu áhafnir mættar til leiks ásamt fylgiliði en keppnin er vinsæl útileguhelgi rallýfólks. Veður og færð gerðu áhöfnum erfitt fyrir, mikið hafði rignt dagana fyrir keppni og voru vegir því sleipir auk þess sem mikil þoka takmarkaði skyggni ökumanna.

Rallý snýst ekki eingöngu um að aka hratt heldur einnig um meðhöndlun bifreiðanna en fjórar áhafnir luku ekki keppni vegna bilana. Bilun gerði það einmitt að verkum að Skagfirðingarnir  Baldur Haraldsson og Katrín María Andrésdóttir náðu ekki að ljúka sérleiðum föstudagsins. Eftir viðgerð fram á nótt náðu þau að halda sér inni í keppninni en luku henni í síðasta sæti.

Húnvetningurinn Guðmundur Snorri Sigurðsson og Magnús Þórðarson höfðu fyrir síðustu sérleið fjögurra sekúnda lakari tíma heldur en heimamennirnir Þórður Ingvason og Björn Ingi Björnsson. Þeir Guðmundur Snorri og Magnús gáfust ekki upp, fjarðlægðu allt sem mögulegt var úr Cherokee bifreið sinni til að létta hana og óku síðan hratt og örugglega í fyrsta sætið með 40 sekúndna forskot á þá Þórð og Björn Inga sem óku á Mitsubishi Pajero. Í þriðja sæti urðu síðan þeir Pétur Ástvaldsson og Snæbjör Hauksson á Crysler Jeep.

Fyrir keppni var ljóst að baráttan yrði einnig hörð í heildarflokki, þar sem margar gríðarlega sterkar áhafnir voru skráðar til leiks. Að loknum akstri á föstudagskvöld var ljóst að þeir Sigurður Bragi Guðmundsson og Aðalsteinn Símonarson leiddu keppnina, þeir óku því öruggt á laugardaginn sem skilaði þeim fyrsta sæti í keppninni. Í öðru sæti urðu þau Baldur Hlöðversson og Hanna Rún Ragnarsdóttir en í þriðja sæti urðu Sigurður Arnar Pálsson og Ragnar Bjarni Gröndal.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir