Þorrinn hefst í dag
Þorrinn hefst í dag en samkvæmt gamla íslenska tímatalinu er hann fjórði mánuður vetrar. Hefst hann því á tímabilinu frá 19.-25. janúar, alltaf á föstudegi og er sá dagur nefndur bóndadagur. Þorrinn er því eins seint á ferðinni að þessu sinni og hann mögulega getur orðið. Eins og áður hefur komið fram í frétt á Feyki.is gætti þess misskilnings á mörgum dagatölum þetta árið að bóndadagur væri þann 18. janúar og því er eitthvað um að tímasetningar á þorrablótum landsmanna hafi skolast til en vonandi kemur það ekki að mikilli sök.
Eins og áður segir er nafnið „þorri“ eitt af heitum mánaðanna í gamla íslenska tímatalinu sem almenningur hér á landi notaði þar til í byrjun 19. aldar þegar latnesku mánaðaheitin leystu hin eldri af hólmi. (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=50863) Þó vissulega hafi verið til heiti á alla mánuði ársins hafa sum þeirra orðið lífseigari en önnur og þekkja velflestir landsmenn þorra, góu og jafnvel einmánuð og hörpu sem er fyrsti sumarmánuðurinn og hefst því á sumardaginn fyrsta. Færri þekkja væntanlega nöfn eins og gormánuð, sem er fyrsti vetrarmánuðurinn, en á eftir honum koma svo ýlir og mörsugur. Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson er að finna góðan fróðleik um mánaða- og dagaheiti.
Til er gömul þula um mánuðina þar sem einkenni hvers um sig eru tíunduð. Um þorrann segir þar. „Þorri hristir fannafeldinn, fnæsir í bæ og drepur eldinn.“ Hið kunna kvæði Kristjáns Jónssonar fjallaskálds, Þorraþrællinn 1866, hefst á línunum: „Nú er frost á fróni, frýs í æðum blóð. Kveður kuldaljóð, Kári í jötunmóð.“ Það má því ljóst vera að þorrinn var lítið fagnaðarefni landsmanna hér áður fyrr. Nútímafólk fagnar þessum mánuði hins vegar með bóndadagsgjöfum sem konur færa bændum sínum og í flestum sveitum landsins eru haldnar matarveislur miklar, þorrablót, þar sem borðin svigna undir kræsingum miklum. Þá leggja menn sér einkum til munns mat sem yfirleitt er ekki á boðstólum dags daglega. Má þar nefna margar tegundir súrmatar, s.s. hrútspunga og hval, sviðasultu og lundabagga, en auk þess hangiket og svið, hákarl og harðfisk, rúgbrauð og flatkökur.
Á Norðurlandi vestra verður haldinn fjöldi þorrablóta sem venja er og sem fyrr þiggur Feykir með glöðu geði myndir af blótum á svæðinu sem senda má á netfangið feykir@feykir.is. Hér á eftir fylgir listi yfir þau þorrablót sem Feyki er kunnugt um en hann er alls ekki tæmandi:
Þorrablót Fljótamanna á Ketilási föstudaginn 25. janúar.
Þorrablót fyrrum Lýtingsstaðahrepps í Félagsheimilinu Árgarði föstudaginn 25. janúar.
Þorrablót Blönduósinga í Félagsheimilinu Blönduósi laugardaginn 2. febrúar.
Þorrablót Víðdælinga í Víðihlíð laugardaginn 2. febrúar.
Þorrablót fyrrum Hofshrepps í Höfðaborg á Hofsósi laugardaginn 2. febrúar.
Þorrablót Bólhlíðinga og Svínvetninga í Húnaveri laugardaginn 2. febrúar.
Þorrablót fyrrum Seyluhrepps í Miðgarði laugardaginn 2. febrúar.
Króksblót í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 2. febrúar.
Þorrablót fyrrum Hóla-og Viðvíkurhrepps í Höfðaborg laugardaginn 9. febrúar.
Þorrablót UMF Kormáks í Félagsheimilinu á Hvammstanga laugardaginn 9.febrúar.
Hreppablótið í Austur-Húnavatnssýslu laugardaginn 9. febrúar.
Þorrablót Akra-, Lýtingsstaða- og Staðarhrepps í Miðgarði laugardaginn 16. febrúar.
Þorrablót Miðfirðinga og Hrútfirðinga austanvert í Ásbyrgi laugardaginn 16. febrúar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.