Þetta ætti ekki að geta klikkað
Það styttist í Sæluviku og einn af forsæluréttunum í ár er Kántrýkvöld í Gránu á Sauðárkróki. Það eru engir aukvisar sem þar stíga á svið en sönginn annast Magni Ásgeirs, Malen og Sóla Áskelsdætur og Sigvaldi Gunnars og þau eru bökkuð upp af geggjuðu bandi skipað þeim Reyni Snæ, Gunnari Sigfúsi, Bergi Einari og Baldvin Snæ. „Þetta ætti ekki að geta klikkað og okkur þætti vænt um að sjá sem flesta!“ segir Sigvaldi í spjalli við Feyki.
Hvaða lög mega áheyrendur reikna með að fá að heyra? „Meginþorri laganna verður af bandarískum uppruna, enda á kántrýið upptök sín þar. Við sækjum m.a. lög úr smiðju Eagles, Dolly Parton og Kacey Musgraves. Þá verða flutt nokkur frumsamin lög sem vonandi falla vel í kramið hjá áhorfendum. Svo þetta verður blanda af lögum sem allir þekkja og geta sungið með, og svo minna þekktum lögum sem okkur hefur lengi langað til að spila á tónleikum.“
Í lok síðustu aldar þótti fátt hallærislegra en kántrýmúsik. Hvað gerðist, hver er galdurinn í kántrýinu? „Ég held að kántrýmúsik sé ennþá frekar hallærisleg sem er kannski hluti af galdrinum við hana. Það er ennþá verið að vinna með sömu klisjurnar en þær hafa í mörgum tilfellum verið settar í nútímalegri búning og blandað við popptónlist, og þar af leiðandi orðið meira “mainstream”. Það sem einkennir gott kántrý eru einfaldir hljómar, eftirminnileg melódía og helst af öllu sögurnar sem eru sagðar í textunum. Góðir kántrý textar innihalda oftar en ekki einhvern boðskap, auðvitað mis djúpann þó. Svo þegar hugmyndaríkt fólk blandar þessari gömlu formúlu við nýja strauma getur útkoman verið töfrum líkast. En auðvitað hefur viðhorf hlustenda líka breyst með komu streymisveita eins og Spotify. Nú þykir lítið mál að hlusta á allar heimsins tónlistarstefnur, sama hversu hallærislegar þær eru. Aðgengi að fjölbreyttri tónlist er orðin svo mikil að maður getur blandað þessu öllu saman, ólíkt því sem kannski tíðkaðist hér áður fyrr þegar það mátti bara hlusta annað hvort á Wham eða Duran Duran en alls ekki bæði! En við munum reyna að láta allt það fallega við kántrýtónlist skína í gegn á tónleikunum með banjóleik, þríröddun og öllum helstu klisjunum.“
Hvað geturðu sagt okkur um band kvöldsins? „Meðlimir bandsins eru Baldvin Snær sem leikur á hljómborð, Bergur Einar á trommur og slagverk, Gunnar Sigfús á raf- og kontrabassa og Reynir Snær sem mun leika á alls kyns strengjahljóðfæri. Fólk kannast sjálfsagt við þá Gunnar Sigfús og Reyni Snæ en þeir eru Skagfirðingar í húð og hár, frábærir spilarar og enn betri menn. Þeir Baldvin og Bergur hafa getið sér gott orð sem producerar og tónlistarmenn í borginni og víðar, ýmist sem sóló artistar eða með hljómsveitum á borð við Hipsumhaps og VÖK. Ásamt þeim mun ég sjálfur leika á gítar og syngja með þeim Malen, Sólu og Magna. Þetta ætti ekki að geta klikkað og okkur þætti vænt um að sjá sem flesta!“
Dyr Gránu verða opnaðar kl. 20 og kántrýið lifnar við hálftíma síðar. Miðaverð er aðeins kr. 2.500 og hægt er að nálgast miða á tix.is. Tónleikarnir eru haldnir með styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og Menningarsjóði KS.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.