Það vantar enn prest í Skagafjörð
Enn hefur ekki verið ráðinn prestur í Skagafjörð í stað sr. Döllu Þórðardóttur sem lagði kragann á hilluna þann 1. desember síðastliðinn. Feykir hafði samband við nýjan prófast í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, séra Sigríði Gunnarsdóttur, og sagði hún að ástandið mætti vera betra í prestamálum í Skagafirði en séra Bryndís Svavarsdóttir hefur þó verið ráðin fram til áramóta.
Að öllu jöfnu væru þrír prestar starfandi í Skagafjarðarsókn. „Sr. Halla Rut er í veikindaleyfi og Sr. Gísli Gunnarsson viglsubiskup kemur inn til þjónustunnar meðan sumarleyfi standa yfir,“ segir Sigríður en tvisvar hefur verið auglýst eftir presti í stað Sr. Döllu en án árangurs.
„Nú er komin upp sama staða hér og hefur verið í nágrannalöndunum um árabil. Það vantar presta, einkum á landsbyggðina,“ segir Sigríður og bætir við að svo virðist sem færri séu að læra guðfræði með það í huga að taka vígslu og starfa sem prestar.
Feykir spurði Sigríði, svona í ljósi jákvæðrar útkomu Skagafjarðar í nýlegri íbúakönnun, hvort prestar væru ekki að elta hamingjuna. Hún svaraði því til að það mætti gjarnan láta niðurstöður hamingju könnunarinnar fylgja með næst þegar auglýst verður eftir presti.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.