,, Það væri gaman að geta unnið band úr ull af kindunum hér á bænum,,
Þyrey Hlífarsdóttir heit ég, gift Degi Þór Baldvinssyni. Við eigum þrjú börn Evu Rún, Hlífar Óla og Baldvin Orra. Við búum í Víðiholti og starfa ég sem grunnskólakennari í Varmahlíðarskóla þar sem ég kenni umsjónarkennslu í 1. - 2. bekk auk þess sem ég kenni textílmennt við skólann. Ég tek glöð við áskorun frá Stefaníu ömmusystur minni um að segja aðeins frá því hvað ég er með á prjónunum,“ segur áskorandi hannyrðaþáttar Feykis að þessu sinni. Gefum Þyrey orðið.
Alveg frá því ég man fyrst eftir mér hef ég haft mikinn áhuga á öllu handverki og hannyrðum. Oft þótti mér fúllt að mamma mín gerði litla sem enga handavinnu og því var ekki til mikið af garni, prjónum eða efni til að vinna úr heima hjá mér. Ég var þó svo heppin að föðuramma mín bjó á efri hæðinni hjá okkur, en hún var mikil hannyrðakona og lærði ég margt af henni, þá aðallega í saumaskap og endurnýtingu. Móðuramma mín er líka mikil hannyrðakona og gerir enn mikið af fallegu handverki og á alltaf eitthvað til í prjónakassanum sínum þegar barnabörnin og langömmubörnin eru með kaldar hendur eða fætur. Ég er svo heppin með það að eiga marga að í kringum mig sem kunna vel til verka þegar kemur að hannyrðum. Síðustu ár hef ég t.d. farið á hverju sumri í nokkra daga til frænku minnar Hólmfríðar Ófeigsdóttur sem býr á sveitabæ í Vopnafirði. Hún kenndi mér að jurtalita band og höfum við átt dásamlegar stundir saman við þessa iðju. Það er ómetanlegt að læra til verka af fólki sem býr yfir þekkingu og vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð í áraraðir og mikilvægt að þekkingin viðhaldist.
Ég er oftast með nokkur verkefni á prjónunum í einu og stundum helst til of mörg. Núna er ég t.d. með þrjár peysur á prjónunum og aðrar þrjár sem ég á aðeins eftir að ganga frá, setja í rennilás, þvo og leggja til. Mér finnst mjög gaman að flest allri handavinnu, fatasaum, útsaum, perlusaum, hekla, prjóna, lita garn o.fl. Það er þó ansi margt sem ég á ennþá eftir að læra og er ég með margt á listanum mínum sem mig langar að læra. Það sem er næst á stefnuskránni hjá mér er að læra að vinna ull, kemba og spinna. Það væri gaman að geta unnið band úr ull af kindunum hér á bænum. En við sjáum til hvort það verður að veruleika einn daginn.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.