Það hefur sýnt sig að við getum sýnt mikla samstöðu
Sigfús Ingi Sigfússon í Syðri-Gröf er sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, fjölmennasta sveitarfélaginu á Norðurlandi vestra. Auk þess að gegna starfi sveitarstjóra stundar Sigfús Ingi einnig búskap með nokkrar ær, naut og hross. Hann er sagnfræðingur, MBA og með diplómu í opinberri stjórnsýslu. Hann tók við starinu sumarið 2018 en hafði áður starfað við markaðs- og kynningarmál sveitarfélagsins.
Íbúar í Skagafirði eru tæplega 4.100 talsins. „Hér í Skagafirði er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf, m.a. sjávarútvegur, landbúnaður, fjölbreyttur iðnaður, ferðaþjónusta, bygginga- og mannvirkjagerð, verslun og margvísleg þjónusta og opinber starfsemi,“ segir Sigfús Ingi.
Hefur atvinnuleysi í sveitarfélaginu aukist í kjölfar COVID? Atvinnuleysi jókst talsvert sl. vor en hefur sem betur fer sigið aftur niður á við. Atvinnuleysi er í dag 3,1% þannig að staðan er sem betur fer mun betri hér hvað þetta varðar heldur en víða um landið.
Hafa tekjur sveitarfélagsins, útsvar og framlög, minnkað vegna COVID? Útsvarsgreiðslur hafa haldist í takt við þá fjárhagsáætlun sem við lögðum upp með í ár. Framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa hins vegar minnkað verulega og ýmsar aðrar tekjur hafa einnig lækkað nokkuð.
Hafa útgjöld vegna félagsþjónustu og æskulýðsstarfs aukist á tímabilinu? Ýmis útgjöld hafa aukist í kjölfar Covid-19, þ.á.m. vegna félagsþjónustu. Við sjáum þetta ef til vill ekki með sama hætti í æskulýðsstarfi en vegna faraldursins og reglugerða þeim tengdum hefur komið til lokana á íþróttamannvirkjum og skerðinga á ýmsu félagsstarfi.
Hvernig er útlitið fyrir næsta ár? Vinna við fjárhagsáætlun næsta árs er í fullum gangi og ljóst að útlitið gæti verið mun bjartara. Tekjusamdráttur verður að óbreyttu allnokkur á sama tíma og sveitarfélagið mun reyna að halda áfram úti öflugri og góðri þjónustu.
Mun sveitarfélagið fara í einhverjar framkvæmdir til að styðja við atvinnulífið á svæðinu? Sveitarstjórn vann strax í vor að tillögum til viðspyrnu fyrir samfélagið vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 veiran hefur haft í för með sér. Ég tel að þau skref sem þar voru stigin hafi komið að góðu gagni. Sveitarfélagið mun einnig standa fyrir umfangsmiklum framkvæmdum á næsta ári en það verður útfært í þeirri fjárhagsáætlunargerð sem nú stendur yfir.
Er eitthvað sem þér finnst að ríkið mætti gera betur til að styðja við sveitarfélögin? Mér finnst ríkið hafa gert margt mjög gott í þeirri erfiðu stöðu sem við erum komin í. Það ber að hafa í huga að við höfum ekki séð viðlíka efnahagssamdrátt í hartnær heila öld og að hann er mun meiri nú en t.d. í bankahruninu. Ég get hins vegar jafnframt bent á að ríkisvaldið mætti styðja betur við sveitarfélögin með því að leggja aukið framlag til þeirra í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sveitarfélögin veita mikilvæga nærþjónustu til íbúanna og nauðsynlegt að þau geti áfram gert það með öflugum hætti.
Hver er þín tilfinning fyrir líðan íbúa og hvernig finnst þér þeir hafa brugðist við þessum breyttu aðstæðum sem heimsfaraldur hefur haft í för með sér? Það er ekki endilega auðvelt að átta sig á því. Maður finnur fyrir því að mörgum er eðlilega órótt, aðrir eru orðnir þreyttir því þetta ástand hefur varað lengi en ég tel að velflestir hafi brugðist við af mikilli skynsemi, gætt að sóttvörnum og forðast hegðun sem stuðlað geti að dreifingu veirunnar. Hún er hins vegar illvíg eins og við höfum orðið vör við og ekki einfalt að ráða við hana. Blessunarlega hefur fólk líka verið duglegt við að líta sér nær og hugsa um og hlúa að fólkinu sínu og það er vel.
Hvað hefur þér fundist erfiðast við faraldurinn? Það sem er erfiðast við faraldurinn er auðvitað þessi miklu áhrif sem hann hefur haft á daglegt líf fólks og langvinn áhrif á sum þeirra sem hafa veikst, svo ekki sé talað um að of margir hafa látið lífið af hans völdum. Þá hefur faraldurinn haft mikil áhrif á margvíslega atvinnustarfsemi og þar með fjárhagslega afkomu mikils fjölda fólks. Það liggja ef til vill ekki í augum uppi jákvæðar hliðar á aðstæðum okkar, en það hefur þó sýnt sig að við getum sýnt mikla samstöðu og verið einbeitt í að reyna að forða smitum. Okkar framlínustarfsmenn hafa unnið eins vel og hægt er úr þessum erfiðu aðstæðum sem við höfum búið við núna í hartnær eitt ár og gert okkur hinum tilveruna bærilegri og það ber að þakka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.