"Það fór um auman Húnvetninginn ......." Fréttapistill eftir Kára Kárason

Jæja, þá er ætlunin að skrifa stutta en innihaldsríka ferðasögu, af ferð meistaraflokks Hvatar á Evrópumót UEFA í Futsal. Til að gera langa sögu stutta, þá gerðist það markverðasta að hamborgararnir á sportsbarnum á Kastrup kosta 4.500 kr með vatni.

Eftir annars gott flug frá Kastrup til Vínar, var tekið á móti okkur af ungum manni sem ber heitið Nikulás og verður hann okkar maður á meðan á dvölinni stendur, fínasti náungi. Ferðin frá flugvellinum að hótelinu sem við gistum á tók um eina klukkustund. Var farið að renna á okkur tvær grímur í lok ferðarinanr þar sem okkur sýndist sem bæði okkar maður og bílstjórinn værum rammvilltir, höfðum sumir af því áhyggjur að við myndum lenda í einhverri kjallaraholi í 20 ár, fyrir því er jú fordæmi jafnvel í Austuríki.

Þegar komið var á hótelið var kominn niðamyrkur og því ekkert að sjá fyrir utan bílastæði hótelsins og því vissum við í raun ekkert hvernig landslag beið okkar.. Þegar allir voru búnir að fá sín herbergi, var sest niður við snæðing á guðaveigum sem beið okkar. Mjög vel er lagt í allan mat okkar og hreinlega stjanað við okkur eins og við værum í raun félgslið á heimssklassa.... jú við erum víst á heimsklassa, öðruvísi værum við ekki hérna komnir.

Morguninn 19. ágúst var hreint út sagt æðislegur. Sólin skein sem aldrei fyrr og við blasti eitt það fallegasta umhverfi sem undirritaður hefur augu barið. Trjám vaxnar brekkur á alla kanta og kyrrð sem myndi gera alla dofna. Annars beið stíf áætlun fyrir allan daginn og hófst hann með fundi með yfirvöldum UEFA. Það verður að segjast eins og er að það fór um auman Húnvetninginn að standa fyrir framan fjölda manns og kynna sig og lið okkar, en með smá gríni um smæð Blönduóss og að hérna væru rúmt prósent af heildaríbúðafjölda heimahaganna, uppskar maður hlátur og þar með voru allir vegir færir. Meðan undirritaður sat fundinn með UEFA, fór liðið á sína fyrstu æfingu í höllinni, en höll þessi er svipuð að stærð og íþróttahúsið á Blönduósi, nema fjöldi búningsklefa en alls eru 5 búningsklefar í höllinni. Gekk æfingin vel en kom þá í ljós að einhvern vantaði tilskilin fatnað , þ.e.a.s. legghlífar. Var haft að orði að sumir hefðu verið Frosnir þegar þeir settu niður í töskurnar. Því var úr að komið var við í molli og farið í íþróttaverslun til að kaupa legghlífar. Á leiðinni út úr mollinu fór kliður um hópinn þegar við komust af því að nafn Hvatar var á risa veggspjaldi sem auglýsti keppnina og enn ein sönnun þess að við erum í sérflokki þegar kemur af Futsal.

Fyrsti leikurinn var gegn Asa Tel Aviv. Byrjunarliðið var eftirfarandi: Frosti Bjarna í marki, Óskar og Gissi í vörn og Siggi Rún og Aron Bjarna frammi. Það verður að segjast eins og er að smá stress var í gangi því á fyrstu mínútunni gátum við ekki neitt og var því hægðarleikur fyrir liðsmenn Asa að setja á okkur mark. Vaknaði þá liðið og náðum að skora mark stuttu síðar en þar var á ferðinni Brynjar Guðjónsson. Eitthvað slökuðu okkar menn á því áður en við vissum af voru liðsmenn Asa búnir að setja á okkur 3 mörk til viðbótar og staðan því 4-1 í hálfleik. Slæm staða, en í leikhlé var ákveðið að pressa og fara í leikinn af meiri græðgi en var við lýði í fyrri hálfleik. Í stuttu máli fór seinni hálfleikurinn 1-1 þar sem við skoruðum mark snemma í seinni hálfleik, en þar var að verki Óskar Snær. Pressað var af hörku í seinni hálfleik en því miður náðu Asa menn að setja á okkur mark. Almennt vorum við betri aðilinn í seinni hálfleiknum og hefðum geta unnið leikinn hefði smá heppni gegnið til liðs við Hvöt, stangarskot og all mörg skot í hliðarnetið er sönnun þess.

Þegar flautað var til leiksloka vorum við eftir allt saman sáttir, lögðum okkur fram en töpuðum fyrir fínum strákum frá Ísrael sem brutu ekki einu sinni á okkur í öllum leiknum. Gott lið og enginn skömm að tapa fyrir þeim.

Á morgun leikum við á móti gestgjöfunum All Star og mun sá leikur hefjast kl 20:30 að okkar tíma, en fyrir þann leik mun ég fara í verslun og kaupa snúru til þess að kópera myndir sem við höfum tekið, því jú myndir segja meira en 1000 orð.

Nú er pókerkvöld hjá strákunum en ég að á eftir að sortera sveitta sokka og setja í þvott, sendi ykkur meira á síðar. Með Hvatarkveðju frá Austurríki, þetta er Kári Kára sem talar frá Austríki

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir