Tekist á um reiðveg
Hestamannafélögin Léttfeti og Stígandi óskar eftir því við Svf. Skagafjörð að fá styrk að upphæð 1.500 þús.kr til uppbyggingar reiðvegar á milli Sauðárkróks og Varmahlíðar.
Unnið hefur verið að því á liðnum árum að leggja reiðveg á milli þessara staða og eru nú nokkrir kaflar á leiðinni þar sem hann er í lagi en fjármagn ekki verið fyrir hendi til að klára verkefnið.
Málið var tekið fyrir á síðasta fundi byggðaráðs og þar viðraði Páll Dagbjartsson þá skoðun sína að ástand reiðvegamála í Skagafirði er og hefur verið Skagfirðingum til vansa um langt skeið og sagði að umhverfis- og samgöngunefnd hafi ekki aðhafst nokkuð varðandi reiðvegamál í héraði og einnig taldi Páll að skipulags- og byggingarnefnd hafi brugðist í því efni að taka með ábyrgum hætti á þessu verkefni við gerð Aðalskipulags fyrir Skagafjörð. Lagði hann til að sveitafélagið verði við erindinu og geri ráð fyrir fjármunum vegna þess í fjárhagsáætlun ársins 2010
Þórdís Friðbjörnsdóttir mótmælti harðlega orðum Páls um vinnubrögð umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli og vísaði til vinnu við aðalskipulag þar sem reiðvegamálin eru til meðhöndlunar.
Meirihluti byggðarráðs samþykkti að fela sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga um verkefnið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.