Tap gegn FSU
Unglingaflokkur Tindastóls lék sinn fyrsta leik í Íslandsmótinu á laugardaginn þegar liðið tók á móti sprækum strákum úr FSu. Lokatölur urðu 54-73.
Gestirnir komu heimamönnum í opna skjöldu með stífum varnarleik og sló það Tindastólsstrákana út af laginu. Í framhaldinu fóru þeir að einbeita sér að dómgæslunni í leiknum í stað þess að snúa bökum saman og taka á móti andstæðingum sínum.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 3-22 og í hálfleik 14-38.
Í seinni hálfleik tóku heimamenn sig saman í andlitinu og settu einbeitinguna á körfuboltann lengst af og þá brá oft fyrir ágætum leikköflum. Óhætt er að fullyrða að hefðu menn gert það allan leikinn, hefðu þeir staðið betur í hinum sterku andstæðingum sínum.
Staðan eftir þriðja leikhluta var 26-54 og leikurinn endaði með 19 stiga sigri FSu 54-73.
Tindastólsliðið var sjálfu sér verst í þessum leik og yfirburðir FSu hefðu ekki verið svo miklir ef leikmenn hefðu einbeitt sér að leiknum sjálfum og látið dómara leiksins í friði. Það er stóri lærdómurinn úr þessum leik.
Hreinn Gunnar Birgisson var stigahæstur Tindastólsmanna með 17 stig, Sigmar Logi Björnsson skoraði 10, Halldór Halldórsson 8, Pálmi Geir Jónsson 5, Loftur Páll Eiríksson og Þorbergur Ólafsson 5 hvor, Hákon Bjarnason 2 og Einar Bjarni Einarsson 1.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.