Tækifæri í kreppunni
Bifreiðaverkstæðið Pardus á Hofsósi hefur fjölgað starfsmönnum sínum um helming á einu ári en vegna kreppunnar er minna keypt af nýjum tækjum en þess í stað gert við þau gömlu.
Pardus er fjölskyldufyrirtæki Páls Magnússonar og fjölskyldu á Hofsósi stofnað árið 1978 og hefur starfað óslitið síðan og aldrei meira að gera. –Það er meiri aukning í viðgerðum vegna aukinnar þjónustu, segir Páll en hann er nýkominn frá höfuðborginni með samning við Vélfang og Vélaborg. –Við gerðum samning við Vélfang um að þjónusta JCB og fleiri tæki og vorum svo að framlengja umboðssamning með Welger en Vélaborg er nýkomið með umboðið, segir Páll. Fyrir er Pardus með þjónustu fyrir New Holland, Case, Zetor og Ford ásamt því að vera í bílaviðgerðum.
Vegna aukinnar þjónustu hefur starfsmönnum fjölgað á Pardus úr fjórum í átta á einu ári en auk viðgerða á vélum og bifreiðum opnaði Pardus rafmagnsverkstæðisdeild innan fyrirtækisins í síðustu viku. Pardus hefur yfir að ráða viðgerðarbíl sem er mjög vel útbúinn og hentar vel þegar þarf að gera við fjarri verkstæðinu, en auk þess að vera í Skagafirði er einnig mikið þjónustað í Húnavatnssýslum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.