Svekkjandi jafntefli í Kaplakrika

Mur heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Tindastól. MYND: ÓAB
Mur heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Tindastól. MYND: ÓAB

Í gærkvöldi fór fram leikur FH og Tindastóls í Inkasso deild kvenna. Þetta var mikill markaleikur og voru skoruð átta mörk í þessum leik, tvö í fyrri hálfleik og heil sex mörk í þeim síðari. Allt virtist benda til sigurs hjá Tindastól þegar þær voru komnar í 1-4 á 66. mínútu leiksins en heimastúlkurnar skoruðu þrjú mörk á tólf mínútum og endaði leikurinn 4-4.

Leikurinn byrjaði virkilega vel fyrir Tindastól þegar Murielle Tiernan skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Jacqueline á annarri mínútu. Eftir mark Tindastóls lágu FH-ingar í sókn en á 39. mínútu skoraði Tindastóll aftur þegar Kristrún María kom með háa sendingu inn á Murielle sem var sterk og náði að snúa af sér varnarmanninn og leggja boltann svo framhjá Anítu í markinu algjörlega gegn gangi leiksins. Staðan 0-2 í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks náði FH að minnka muninn eftir klaufagang í vörninni hjá Tindastóls þegar  varnamaður Tindastóls  ætlaði að leggja hann til baka á Lauren en Birta kom á blindu hliðina og var á undan í boltann og lagði hann svo snyrtilega í stöngina og inn. Á 63. mínútu komst Tindastóll í 1-3 þegar Murielle lét vaða af löngu færi sem markvörður FH kom engum vörnum við. Þremur mínútum síðar kom fjórða mark Tindastóls þegar Laufey Harpa skaut af löngu færi sem markvörður FH réði ekki við og staðan 1-4 eftir 66. mínútur þá héldu margir að þetta væri komið hjá Tindastól en leikurinn er 90. mínútur. Fjórum mínútum eftir mark Tindastóls náði FH að minnka muninn í 2-4 þegar FH fékk aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Tindastóls, boltinn kom inn í þvöguna inn í teignum og fór boltinn af Guðrúnu Jenný sem skoraði sjálfsmark. Á 76. mínútu var staðan allt í einu orðin 3-4 þegar Þórey Björk skaut á mark Tindastóls sem hafnaði í netinu. Sex mínútum síðar kom jöfnunarmarkið þegar FH náði að beita góðri skyndisókn eftir hornspyrnu Tindastóls, boltinn endaði hjá Birtu Georgsdóttur sem skoraði laglega framhjá Lauren í markinu og lokaúrslitin í leiknum 4-4.

Maður leiksins var Murielle Tiernan.

Held að flest allir stuðningsmenn Tindastóls hefðu verið sáttir með stigið fyrir leik en þegar Tindastóll var komið í 1-4 þá átti maður von á sigri Tindastóls. Alveg grátlegt að missa þetta niður því þessi leikur var ekkert smá mikilvægur fyrir Tindastól upp á það að komast nær toppliðunum tveim.

Tindastóll er áfram í þriðja sætinu með 19 stig meðan FH er í því fyrsta með 26 stig en getur misst efsta sætið vinni Þróttur Reykjavík í kvöld.

Næsti leikur hjá Tindastól er á móti Þrótti Reykjavík og verður leikurinn spilaður á Sauðárkróksvelli 8. ágúst klukkan 19:15.

/EÍG        

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir