Sveitasælan komin í syngjandi sveiflu
Það mætti halda að það væri saga sumarsins að í hvert sinn sem slegið er upp veislu í Skagafirði þá mætir þokan alltaf fyrst á svæðið. Þannig var það í morgun þegar Sveitasæla, landbúnaðarsýning og bændahátíð, hófst kl. 10 í Reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki. Þokunni er þó farið að létta og stefnir í linnulítil sólskinsbros næstu tímana.
Setning Sveitasælunnar var kl. 11 þegar fólk var farið að týnast niðureftir í gegnum þokuna. Fyrst spilaði og söng snillingurinn Sigvaldi Gunnars tvö lög en þá var komið að því að Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, setti hátíðina formlega. Í kjölfar hennar sagði Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, nokkur vel valin orð og síðan söng Sigvald lagið ljúfa um sveitavegina sem skila okkur í heimahagana.
Ýmsar uppákomur eru framundan á Sveitasælunni. Hrútaþukl var nú í hádeginu, Leikfélag Sauðárkróks leikur við hvurn sinn fingur klukkan eitt og Hvolpasveitin heilsar upp á gesti að því loknu. Þá verður teymt undir börnum, verðlaunaafhending vegna hrútadóma verður hálf þrjú, kálfasýning hálftíma síðar og tónlistaratriði klukkan fjögur. Hátíðinni lýkur síðan á slaginu fimm og því ekki nokkur ástæða til að draga það að drífa sig í reiðhöllina – hlusta, skoða, hlæja og smakka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.