Sveitarfélagið Skagafjörður rekið með 78 m.kr. halla árið 2010
Fjárhagsáætlun Svf. Skagafjarðar fyrir árið 2010 var samþykkt á síðasta sveitarstjórnarfundi en þar er gert ráð fyrir hallarekstri upp á rúmlega 83 milljónir króna þegar rekstur A-hluta er reiknaður. Minnihlutinn lét bóka áhyggjur sínar að sveitarfélagið stefni í þrot.
Fram kom í máli sveitarstjóra á fundinum að unnið var að fjárhagsgerðinni með öðru sniði en oft áður þar sem grunnvinna áætlunarinnar hafi farið fram í samvinnu kjörinna fulltrúa í nefndum og starfsfólks eftir að vinnurammi var gefinn út af byggðaráði. Telur sveitarstjóri nýtt vinnulag vera til bóta. Gert er ráð fyrir gjadskrárhækkunum á flestum sviðum hjá stofnunum sveitarfélagsins í samræmi við verðlagsþróun. Líkt og áður eru fræðslu- og uppeldismálin frekust á skatttekjurnar eða alls um 57,9%. Næst stærsti liðurinn er æskulýðs- og íþróttamál sem nema um 12,4% af skatttekjum.
Rekstrartekjur A-hluta eru áætlaðar 2.682 milljónir króna og rekstrargjöld án fjármagnsliða 2.630 milljónir króna. Fjármagnsliðir 136 milljónir króna. Rekstrarhalli ársins 83.073 þús.kr.
Samantekin áætlun fyrir A og B-hluta sveitarsjóðs gerir ráð fyrir tekjum að upphæð kr. 3.054 milljónum króna, rekstrargjöldum án fjármagnsliða 2.866 milljónir króna og fjármagnsliðum 267 milljónir króna. Rekstrarhalli ársins 78.360 þús.krónur.
Til glöggvunar skal upplýst að A-hluti sveitarsjóðs er aðalsjóður sveitarfélagsins auk annara sjóða og stofnana sem sinna starfsemi sem er að hluta eða alveg fjármögnuð af skatttekjum.
B-hluta sveitarsjóðs tilheyra fyrirtæki og rekstrareiningar sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélaga, eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar og hafa lagaheimild til að innheimta þjónustugjöld.
Fjárfesting skv. áætlun ársins 2010 verður samtals 584 milljónir króna og afborganir lána 216 milljónir króna og ný lántaka 495 milljónir króna. Leikskólinn við Árkíl er langstærsta framkvæmdin sem sveitarfélagið ræðst í á árinu en stækkun verknámsaðstöðu Fjölbrautaskólans er einnig fyrirferðamikil en það verkefni er unnið í samvinnu við önnur sveitarfélög á Norðurlandi vestra.
Minnihlutinn lét bóka þær áhyggjur sínar að þar sem handbært fé aðalsjóðs sveitarfélagsins frá rekstri dugar ekki fyrir afborgunum langtímalána stefnir sveitarsjóður í greiðsluþrot nema til komi stórfelld eignasala.
Meirihlutinn lét bóka að markmið fjárhagsáætlunarinnar sé að verja grunnþjónustuna og að vinna með íbúum héraðsins úr þeim vanda sem steðjar að íslensku samfélagi. Af þeim ástæðum er ekki gert ráð fyrir rekstrarafgangi á árinu 2010. Enn fremur segir í bókuninni að það sé mat meirihlutans að frekari álögur og eða niðurskurður á þjónustu skaði samfélagið til lengri tíma litið.
Sigurður Árnason fulltrúi Framsóknar lét bóka að hann hafni algjörlega fullyrðingum minnihlutans um að sveitarfélagið stefni í greiðsluþrot. Þar sé um óábyrgan málflutning að ræða.
Hér fyrir neðan má sjá bókanir vegna fjárhagsáætlunar Svf, Skagafjarðar fyrir árið 2010.
Gísli Árnason lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd minnihlutans.
"Fjárhagsáætlun meirihluta sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2010 ber vitni um áframhaldandi skuldasöfnun sveitarfélagsins og 78,4 milljóna rekstrarhalla. Gert er ráð fyrir 495 milljóna króna lántökum sveitarfélagsins á árinu, þannig að útlit er fyrir að skuldaaukning sveitarfélagsins á kjörtímabilinu verði tæplega eittþúsund og þrjúhundruð milljónir króna.
Staðan er orðin þannig að handbært fé aðalsjóðs sveitarfélagsins frá rekstri dugar ekki fyrir afborgunum langtímalána. Það táknar í raun að allar framkvæmdir aðalsjóðs þarf að fjármagna með nýjum lántökum. Öllum má vera ljóst að slíkt gengur ekki til lengdar.
Framlögð áætlun meirihluta sveitarstjórnar gerir ráð fyrir 584 milljónum króna í fjárfestingu á árinu. Að óbreyttum rekstri og fjárfestingastefnu stefnir sveitarsjóður í greiðsluþrot nema til komi stórfelld eignasala, sem er með öllu óásættanlegt. Ljóst er að nær ómögulegt verður að fara í nýjar framkvæmdir næstu árin, svo nokkru nemi.
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2010 er alfarið á ábyrgð þeirra flokka er mynda meirihluta sveitarstjórnar, Framsóknarflokks og Samfylkingar."
Þórdís Friðbjörnsdóttir lagði fram bókun frá fulltrúum meirihluta:
"Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2010 er unnin við óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar eftir áföll undanfarinna missera. Afleiðingar þessara áfalla eru ekki að fullu komnar í ljós. Markmið fjárhagsáætlunarinnar er að verja grunnþjónustuna og vinna með íbúum héraðsins úr þeim vanda sem steðjar að íslensku samfélagi. Af þeim ástæðum er ekki gert ráð fyrir rekstrarafgangi á árinu 2010. Það er mat okkar að frekari álögur og/eða niðurskurður á þjónustu skaði samfélag okkar til lengri tíma litið. Samhliða þessum er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum og verulegum upphæðum er varið til stærri viðhaldsverkefna sem mótvægi við almennan samdrátt í byggingar- og framkvæmdaiðnaði. Stærsta verkefnið er nýr leikskóli á Sauðárkróki sem verður fullkláraður og tekinn í notkun á árinu 2010.
Meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar hefur lagt áherslu á agaðan rekstur um leið og horft er til framtíðar. Halli á rekstri sveitarfélagins er helmingaður frá yfirstandandi ári og veltufé frá rekstri telst afar ásættanlegt. Áfram verður leitað leiða til að auka hagkvæmni í rekstri til að tryggja að sveitarfélagið geti tekist á við aðsteðjandi vanda og tekið þátt í framkvæmdum í framtíðinni þannig að Skagafjörður verði áfram í fararbroddi íslenskra sveitarfélaga. Sveitarstjóra og starfsmönnum sveitarfélagsins, sveitarstjórnarfulltrúum og nefndarfólki eru færðar þakkir fyrir mikla og vandaða vinnu við gerð áætlunarinnar og þann árangur sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins"
Einar E. Einarsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Íris Baldvinsdóttir, Sigurður Árnason og Þórdís Friðbjörnsdóttir.
Sigurður Árnason lagði fram eftirfarandi bókun:
"Tillögugerð minnihlutans einkennist af því að senn líður að sveitarstjórnarkosningum. Tillögur þeirra um aukin útgjöld, sem felldar hafa verið fulltrúum meirihlutans, eru allt góð mál sem því miður er ekki hægt að verða við að þessu sinni. Engar tillögur komu fram um verulegar breytingar s.s. á framkvæmdum eða rekstri einstakra stofnana. Algjörlega er hafnað fullyrðingum minnihlutans um að sveitarfélagið stefni í greiðsluþrot. Þar er um óábyrgan málflutning að ræða."
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.