Sund og hagræðing
Nú í janúar tók hluti sveitarstjórnar Skagafjarðar upp og gerði að sinni þá sérstöku hugmynd að klippa aftan af opnunartíma Sundlaugar Sauðárkróks, líklega til ráðdeildar og sparnaðar. Ráðstöfunin var semsé sú að loka sundlauginni klukkan 20 á kvöldin í stað 21 og klukkan 16 á laugardögum í stað 17. Hagsýnisrökin eru líklega sú að það kæmu mjög fáir í sund á kvöldin eftir klukkan 20, 1,3 samkvæmt áreiðanlegum heimildum af skrifstofu sveitarfélagsins. Þessi röksemd er ekki rétt því svo vel vill til að þetta er sá tími dagsins sem undirritaður fer í sund.
Hef aldrei framkvæmt formlega skriflega talningu á fjölda sundlaugargesta en þeir eru oft á bilinu 5 – 10 í á þessum tíma, það hefur komið fyrir að undirritaður hefur verið einn í lauginni en stundum eru enn fleiri en 10 á þessum tíma. Ég nota laugina frá rúmlega 20 til klukkan 21 og svo 16 – 17 um helgar ef það hentar.
Samkvæmt óopinberum tölum (en áreiðanlegum heimildum) þá nemur sparnaðurinn um 275 þúsund krónum á ári af því að loka sundlauginni klukkustundu fyrr á kvöldin og laugardögum yfir vetrarmánuðina. Ég giska á að þessi sparnaður nemi vel innan við 1% af heildarrekstrarkostnaði laugarinnar á Króknum á einu ári.
Hinn nýi opnunartími hentar mér engan vegin og hef ég því verið í nokkurskonar sundverkfalli allan febrúar og mun að öðru óbreyttu verða áfram. Mér telst til að ég fari u.þ.b. 2,5 sinnum að meðaltali á viku í sund, stundum allt að 5-6 sinnum en stundum sjaldnar. Ég borga oft fullt gjald en oft kaupi ég 10 miða kort. Hvert stakt gjald kostar 500 kr en með korti er hver heimsókn á 400 kr (eftir 25% hækkun um áramótin síðustu). Þar sem ég er hættur að fara í sund mun Sundlaug Sauðárkróks tapa um 40.000 krónur á ári (2,5 x 400kr x 40 vikur) á mér persónulega miðað við þennan opnunartíma í 9 mánuði ársins. Vonast til betri opnunar yfir sumarmánuðina og ég komi þá í sund aftur. Ég einn framkalla eða veld því að 15% af meintum sparnaði hefur þegar tapast. Ef 6 aðrir einstaklingar hegða sér einsog ég (ég veit persónulega um a.m.k. 4) þá hefur allur meintur sparnaður horfið út um gluggann. Sumsé skert þjónusta, minni tekjur, enginn sparnaður en hugsanlega aukinn kostnaður.
Ef ég man rétt þá eru reikningar sundlauga þannig að aðgangseyrir nemur einhversstaðar í kringum 20% af rekstrarkostnaði. Ef það er rétt munað hjá mér þá þarf ekki nema einn annan sundlaugargest einsog mig til að hlutfallslegur sparnaður verði étinn upp af lækkun tekna og hlutfallslegur heildarkostnaður sveitarfélagsins hækkar en lækkar ekki við þessa breytingu. Sem sé enginn hlutfallslegur sparnaður, heldur hlutfallslega aukin útgjöld.
Hér hefur sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélagsins orðið á í messunni og svokölluð hagsýni í rekstri snúist í andhverfu sína, nokkurskonar hagfræði andskotans.
Snorri Styrkársson sundáhugamaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.