Súkkulaði-kirsuberjadraumur úr Svartaskógi í eftirrétt

Angela Berthold og Kristján Birgisson í Lækjardal í Austur Húnavatnssýslu buðu lesendum Feykis upp á áhugaverðar uppskriftir í mars 2009. Það hefur óneitanlega áhrif að Angela er frá Þýskalandi en þar er notað mikið kál og laukur í matargerð sem er bæði hollt og ódýrt.

Forréttur:
Lauksúpa:

  • 3-4 laukar, sneiddir
  • 1 msk. smjör
  • 1 l. sjóðandi vatn
  • Súputeningar
  • Svartur pipar
  • 1 msk. edik eða hvítvín
  • Ristaðir brauðteningar
  • Rifinn ostur

Steikja laukhringina í potti með smjöri þangað til þeir byrja að taka smá lit. Hella vatni yfir, krydda með súputeningum og svörtum pipar og láta sjóða í 15 mín. Taka af hellu, bæta edik eða hvítvíni í og smakka súpuna til. Þegar hún er komin á diskana er brauðteningum og rifnum osti stráð yfir.

Aðalréttur:
Súrkálspottréttur:

  • 500 gr. svínagúllas
  • 1 laukur, smátt skorinn
  • Paprikuduft, 1 tsk.salt
  • 1 msk. kúmenfræ
  • 1 msk. edik
  • 100 ml. vatn
  • 1 poki súrkál
  • 1-2 tsk. kartöflumjöl
  • ¼ l. rjómi

Brúna kjötið í olíu á pönnu eða í potti, bæta lauknum við, setja krydd, edik og vatn út í og láta malla í 30 mín. Láta súrkálið úr pokanum í sigti, rífa það aðeins í sundur og setja það saman við kjötið og e.t.v. smá vatn í viðbót, láta sjóða áfram í u.þ.b.15 mín. Það má prófa sig áfram hvort það sé notað súrkál úr heilum poka eða minna. Jafna pottréttinn með kartöflumjöli, bæta rjómanum í og krydda aftur eftir smekk t.d. með salti og/eða sykri. Bera fram með soðnum kartöflum og ferskum niðurskornum perum.

Eftirréttur:
Súkkulaði-kirsuberjadraumur úr Svartaskógi:

  • Brúnkaka, heimabökuð eða keypt
  • Rauð berjasulta
  • Brætt súkkulaði eða tilbúin íssósa
  • Kirsuberjasósa í krukku
  • Léttþeyttur rjómi
  • Súkkulaðispænir

Skera kökuna í litlar sneiðar, smyrja með berjasultunni og búa til samlokur úr þeim. Raða þétt í stóra skál eða annað mót. Dreifa súkkulaðisósu yfir og síðan kirsuberjasósunni. Þekja allt með léttþeyttum rjóma og skreyta með súkkulaðispónum. Þessi réttur er miklu betri þegar hann er búinn að standa í sólarhring.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir