Suðurgarðurinn afhentur formlega
Sveitarfélaginu Skagafirði var á föstudag formlega afhentur Suðurgarðurinn svokallaði sem er sjóvarnargarður við höfnina á Króknum. Það var Þórdís Friðbjörnsdóttir formaður hafnarnefndar sem veitti honum viðtöku af Jóni Árnasyni hjá Víðimelsbræðrum en þeir sáu um verkið.
Garðurinn er mikið mannvirki og hefur staðist væntingar og rúmlega það því að sögn Jóns Árnasonar eru áhrif hans á sjókyrrð í höfninni meiri en búist var við.
Garðurinn sem er 354 metra langur kostar um100 milljónir. Í hann fór um 60 þúsund rúmmetrar af grjóti sem fengið var á þremur stöðum, Hegranesi, Hvalnesi og Vindheimum. Við hann störfuðu að jafnaði 8 – 10 manns frá því um mánaðarmót september – október. Víðimelsbræður fengu að fresta afhendingu garðsins í vetur og vildi Jón koma þakklæti á framfæri fyrir það en dregið var úr framkvæmdahraða með niðurskurði á yfirvinnu til að halda mönnum vinnu lengur.
Að sögn Jóns er verkefnastaða Víðimelsbræðra þannig að verkefni duga fram í júlí. Eftir þann tíma er ómögulegt að sjá fyrir nú og verktilboð eru í tómu rugli en Feykir fjallaði um það fyrr í mánuðinum að verktakar bjóði allt niður í 45-50% í verk og augljóst að erfitt er að taka þátt í slíkum leik.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.