Stórsigur á Blönduósvelli og ný vallarklukka vígð

Á Húna.is er lýsing á leik Hvatar og ÍH/HV sem fór fram í gær. Hvatarmenn hófu leik í 2. deild í dag með góðum og mjög sannfærandi sigri á liði ÍH/HV með 4 mörkum gegn 1 marki gestanna. Leikið var í nokkuð stífri norðanátt og hófu Hvatarmenn leikinn með vindinn í bakið. Eftir nokkur hálffæri leik fyrsta markið dagsins ljós á 15. mínútu leiksins er Óskar Snær Vignisson skoraði gott mark eftir góðan undirbúning nýjasta leikmann Hvatar, Milan Lazarovic en hann skipti yfir í Hvöt í gær.

Óskar Snær var aftur að verki á 29. mínútu þegar hann komst í gegnum flata vörn gestanna og skoraði með góðu skoti. Staðan orðin 2-0 og Hvatarmenn með öll völd á vellinum. Óskar var við það að fullkomna þrennuna tveimur mínútum síðar er hann slapp aftur í gegnum vörn ÍH/HV, lék á markvörðinn en að þessu sinni var laust skot hans varið á marklínu. Á 34. mínútu vildu heimamenn fá vítaspyrnu en ágætur dómari leiksins Bjarni H. Héðinsson sá ekkert athugvert og áfram hélt leikurinn. Liðin skiptust á að sækja í vindinum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan var 2-0 er dómarinn blés til hálfleiks.

Þrátt fyrir að vera á móti vindi í síðari hálfleik, voru það Hvatarmenn sem sáu um að skora mörkin. Á 53. mínútu var komið að Muamer Sadikovic að skora eftir að Gissur fyrirliði Jónasson hafði einleikið upp hægri kantinn og sent fyrir á Muamer. Muamer lét aftur að sér kveða 5 mínútum síðar er hann slapp í gegnum vörn gestanna en að þessu sinni skaut hann í stöng. En vallargestir þurftu ekki að bíða lengi eftir næsta marki heimamanna, því á 60. mínútu lék Milan upp að endamörkum og sendi knöttinn fyrir markið. Þar varð einn gestanna fyrir því að skora í eigið mark og staðan því orðin 4-0 og útlitið allt annað en bjart hjá gestunum.

Eftir fjórða markið hresstust gestirnir aðeins og áttu m.a. gott skot á mark heimamanna sem Nezir markmaður varði vel. Enn var Óskar á ferðinni 20 mínútum fyrir leikslok er hann átti góðan skalla á markið en það var varið og datt boltinn ofan á þaknet marksins. Gestirnir girtu sig í brók eftir þetta og uppskáru mark 12 mínútum fyrir leikslok. Þá áttu þeir hornspyrnu og í teiginn var mættur Daníel Einarsson og hamraði hann knöttinn í markið, óverjandi fyrir Nezir í marki Hvatar. Mínútu síðar var Óskar Snær enn á ferðinni er hann átti gott skot á mark gestanna en markvörðurinn var vel með á nótunum og varði í horn. Eftir þetta gerðist ekki margt fyrir utan eitt færi gestanna sem Nezir varði vel í horn.

Hvatarmenn uppskáru þarna mjög sannfærandi sigur sem var vel við hæfi þar sem að í dag var vígð ný vallarklukka á Blönduósvelli sem er gjöf frá Valdísi Finnbogadóttur og fjölskyldu til minningar um Hilmar Kristjánsson en Hilmar, sem var mikill Hvatarmaður, lést fyrir einu og hálfu ári síðan.

Þess má geta að ungur leikmaður, Stefán Hafsteinsson, lék í dag sinn fyrsta meistaraflokksleik í 2. deild en Stefán er einungis 16 ára.
/HÚNI.IS

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir