Stórleikur í uppsiglingu á Blönduósi

Þann 17. júní nk. verður haldinn á Blönduósi athyglisverður fótboltaleikur eða leikur ársins þegar Brunavarnir A-Hún og meistaraflokkur Hvatar leiða saman hesta sína. Brunavarnirnar skoruðu á Hvatarliðið sem nú hefur tekið áskorunni og vilja spila á 17. júní.

Áskorun á meistaraflokk Hvatar 

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur slökkvilið Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu farið í mikla liðsuppbyggingu. Þar skiptir miklu máli að liðsheildin sé sterk og að menn vinni saman í ábyrgðarmiklu og krefjandi starfi. Uppbyggingin hefur gengið framúrskarandi vel og eru Brunavarnir Austur-Húnavatnssýslu, án efa, með eitt sterkasta hlutastarfandi slökkviliðs landsins.

Liðsmenn slökkviliðsins koma úr öllum greinum atvinnulífsins. Hluti liðsins hefur lokið námi slökkvilismanna og stjórnendur og millistjórnendur viðbótarnámi. Brunavarnir Austur-Húnavatnssýslu er eina hlutastarfandi slökkvilið landsins sem hefur slökkviliðsmenn á föstum vökum utan dagvinnu tíma og um helgar. Metnaður og kraftur slökkviliðsins hefur undanfarið verið að skila sér með mjög góðum æfingum og skipulagningu.

Til að sýna íbúum og öðrum hversu öflugt slökkviliðið er, skorar slökkvilið á meistaradeild Hvatar í fótbolta. Við hvetjum þjálfara Knattspyrnufélagsins Hvatar til að hafa samband við slökkviliðsstjóra. Keppnisdagur og -tími mun verða auglýstur síðar.

Brunavarnir A-Hún skora á meistaraflokk karla í knattspyrnu- „við tökum þessari áskorun með bros á vör“!

Við teljum það okkar skyldu að taka þessari áskorun slökkviliðsins þar sem þeir þykjast hafa verið að æfa á fullu undanfarið. Það á þá betur eftir að koma í ljós hvernig þær æfingar hafa verið og undir hvað þeir eru búnir og teljum við okkur vera þá menn sem gætu gert gæfumuninn í að kanna líkamlegt form slökkviliðsins með því að láta þá hlaupa á eftir okkur einn fótboltaleik. Þegar ég tilkynnti leikmönnum Hvatar þessa áskorun þá hlógu þeir og sögðu þetta vera lítið mál eins og þeir orðuðu þetta „já sæll, að stinga af einhverja kalla með brunaslöngu ætti ekki að vera mikið mál“!!

Íslandsmótið hefur verið tekið af forgangslista okkar og mun þessi leikur fá alla okkar orku!!

Með tilhlökkun og Hvatar kveðju,

Jens Elvar Sævarsson þjálfar mfl. Hvatar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir