Stoppum einelti – strax

Krakkar úr höfðaskóla Um fimm þúsund grunnskólabörn eru lögð í einelti á hverju ári hér á landi. Eins og nú árar er hætta á að þeim eigi enn eftir að fjölga sem verða fyrir barðinu á einelti.

Fátækt og ójöfnuður í samfélaginu eru þættir sem auka líkur á einelti. Heimili og skóli – landssamtök foreldra vilja vekja athygli á þessum staðreyndum og hafa því ákveðið að hefja átak gegn einelti í lok október sem standa á yfir út þetta skólaár.

 

Mikilvægur þáttur í átaki þessu er útgáfa nýs fræðsluheftis um einelti fyrir foreldra. Í því er að finna ýmsar upplýsingar um einelti, einkenni þess og hvar lausna sé að leita. Heftinu á að koma í hendur foreldra allra barna í fimmta bekk grunnskóla, auk þess sem það verður aðgengilegt fyrir alla á heimasíðu Heimilis og skóla – heimiliogskoli.is.

 

Einelti er ofbeldi sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þeir sem verða fyrir einelti í barnæsku bera þess merki, sumir hverjir alla ævi. Fórnarlömb illskeytts eineltis eru til dæmis líklegri til að eiga við geðræn vandamál að stríða síðar á lífsleiðinni, svo sem þunglyndi, kvíða og félagsfælni. Þá eru þau líklegri til að flosna úr námi og eiga erfitt mað að fóta sig á vinnumarkaðnum. Alvarlegast er þegar niðurbrotið verður algert og leiðir til sjálfsvígs en bæði íslenskar og erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli eineltis og sjálfsvígshugsana, sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga.

 

Á hverju ári leita hundruð foreldra til Heimilis og skóla eftir ráðgjöf. Langstærsti hluti þeirra biður um hjálp vegna þess að börn þeirra eru lögð í einelti. Nauðsynlegt er, sér í lagi á tímum sem þessum, að skerpa á umræðu um einelti í þjóðfélaginu og brýna fyrir foreldrum og öðrum sem koma að uppeldi barna að vera vel á verði og grípa strax inn í komi upp grunur um einelti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir