Stopp nú stjórnvöld (málefni Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki )
Árið 2000 var tekin í notkun endurbætt aðstaða við Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki (HS) til endurhæfingar m.a. glæsileg sundlaug sem fjármögnuð var að nokkru leyti af gjafafé frá félögum og einstaklingum auk framlaga frá ríki og Sveitarfélaginu Skagafirði.
Með þessari bættu aðstöðu jókst verulega þjónusta við íbúa Skagafjarðar og er undirrituð ein þeirra sem notið hafa góðs af þeirri þjónustu. Aðstaða þessi er nýtt af sjúklingum og vistmönnum á Heilbrigðisstofnunni, öryrkjum og fötluðum sem búa á svæðinu auk annarra hópa s.s. vefjagigtar, hjarta,lungna og offitusjúklingum sem sækja sér þjónustu oft í viku til að viðhalda starfsgetu sinni.
Nú liggja fyrir tillögur til fjárlaga fyrir árið 2012 og þar er HS gert að skera niður rekstrarkostnað um 8,4% líkt og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á meðan flestum öðrum heilbrigðisstofnum bera að skera niður um 1,5-2%.
Undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir um allt landi þurft að taka á sig niðurskurð og hagræðingu en einsog fram kemur í nýrri skýrslu sem Capacent vann fyrir Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki þá er niðurskurðarkrafan lang mest á HS og HÞ eða 34,1% frá 2008 á áætluðu veðlagi ársins 2012. Tilvitnun í skýrsluna,, Sýnt er fram á að niðurskurður hefur skipst misjafnlega eftir landsvæðum og í ljós kemur að Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki hefur verið látin bera meiri samdrátt í starfsemi en aðrar heilbrigðisstofnanir og önnur landsvæði. Ekki verður séð að forsendur stjórnvalda byggi á formlegri greiningu á aðstæðum í Skagafirði „
Ljóst er að ef fjárlög verða samþykkt óbreytt og tillögur þessar ganga eftir þá mun endurhæfingunni hjá HS verða lokað og starfsseminni hætt.
Ef svo ólíklega myndi vilja til að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra lesi þessa grein þá vil ég að það komi fram að ég geri mér grein fyrir því að hér varð hrun, en ráðherra á það til að svara mönnum ef þessi mál eru rædd, með þeirri spurningu hvort menn viti ekki að hér hafi orðið hrun.
Ég hef ekki fengið niðurfelldar skuldir en húsnæðilán mín hafa hækkað.
Ég er vinnufær ( þökk sé endurhæfingarmeðferð hjá HS ) og borga þar með mína skatta.
Með skerðingu á þjónustu í minni heimabyggð hefur fasteign mín rýrnaði að verðgildi.
Ég tel að ég hafin með þessu tekið á mig minn hlut í hruninu og óska eftir því við stjórnvöld, sem ráðstafa mínum skattpeningum, að mín Heilbrigðisstofnun verði ekki látin taka á sig meiri niðurskurð en aðrar og einhverrar sanngirni verði gætt.
Guðrún Sighvatsdóttir
félagi í Hollvinasamtökum
Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.