Stöndum vörð um það góða starf sem unnið er á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki

Fyrir réttu ári komum við hjónin fyrst á Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Hann á sjúkrabörum eftir heilaaðgerð fyrir sunnan, ég fylgdi með döpur og þreytt.  Árangur af aðgerðinni var óviss, vonin lítil, sem og plássið á Landsspítalanum, - líklega var ódýrara að senda hann norður eina viku þar til geislameðferðin byrjaði. Á Króknum tók á móti okkur yndislegt fólk, það talaði mál sem við skildum, brosti og gaf sér tíma, - það birti til.

 

Í janúar komum við aftur á H.S. eftir geislameðferð. Við fengum hlýlegar viðtökur og minn maður fór í ENDURHÆFINGU, hann þurfti að læra að ganga upp á nýtt.  Störf sjúkraliða eru vanmetin, þeir vinna kraftaverk.  Bóndinn komst á fætur, lærði að ganga við hækju og komst aftur heim í sveit.  Hann fór reglulega í þjálfun á H.S. og ég er þess fullviss að jákvætt viðmót og æfingar sem hann lærði þar, og gat gert heima, töfðu fyrir framgangi sjúkdómsins, ásamt því að gefa lífinu tilgang og veita andlegan styrk.

Um vorið þurfti hann þó aftur að leggjast inn á sjúkrahúsið, nú með lungnabólgu.  Baráttan harðnaði, sjúkdómurinn tók yfir.  Hver dagur varð dýrmætur.  Síðustu sex mánuðina dvaldi hann á H.S. mikið veikur.   Áhrif heilaæxla eru margþætt, þeim verður ekki lýst hér. En þeir sem reynt hafa vita hversu þungbært er að horfa á líf fjara út. Ástvinur verður annar maður, líkami og sál veslast upp.

Ég geri alls ekki lítið úr starfsemi heilbrigðisstofnana á höfuðborgarsvæðinu. Þar er unnið frábært starf og fólk gerir sitt besta þrátt fyrir óhóflegt vinnuálag. En þar þarf líka að spara, hraðinn er meiri og persónuleg þjónusta í lágmarki.  Ég er þakklát fyrir að hafa ekki þurft að leggja á okkur að dvelja í Reykjavík þetta síðasta ár eða eyða fé og takmarkaðri orku í erfið ferðalög.

Þrátt fyrir stórskert opinber framlög, jafnvel á meintum góðæristímum, hefur Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki tekist að halda uppi ómetanlegri þjónustu. Starfsfólkið þar, gerði okkur lífið bærilegra í annars vonlausri baráttu. Þar og víðar úti á landi er til staðar tækjabúnaður, húsnæði og starfsþekking, sem fólkið í landinu á að njóta.  Það er skammsýni að fyrirskipa sparnað á fjármunum sem þegar er búið að verja.  Sárast er þó, að ætla að skerða möguleika fólks að dvelja nærri sínum heimahögum síðustu dagana og fá að deyja með reisn.

Ég hvet ráðamenn þjóðarinnar til að líta sér nær, og hjálpa Skagfirðingum að standa vörð um það góða starf sem unnið er á Heilbrigðisstofnuninni  á Sauðárkróki.

Sigurlína Kristinsdóttir, fyrrverandi bóndi og verslunarmaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir