Stólastúlkur máttu sætta sig við tap í fótboltanum
Karla- og kvennalið Tindastóls áttu bæði að draga fram gervigrasskóna nú um helgina og spila leiki í Kjarnafæðismótinu sem fram fer á Akureyri. Strákarnir áttu að mæta Hömrunum í gær en fresta varð leiknum þar sem Stólarnir náðu ekki í lið þar sem leikmenn voru ýmist í sóttkví eða ekki til taks. Stólastúlkur spiluðu aftur á móti sinn fyrsta leik á undirbúningstímabilinu í dag og urðu að sætta sig við tap gegn sameinuðu Austurlandsliði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis en lokatölur voru 3-0.
Það var Hafdís Ágústsdóttir sem kom þeim austfirsku yfir í Boganum á 39. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Björg Gunnlaugsdóttir bætti við marki snemma í síðari hálfleik og bætti síðan við öðru marki sínu tuttugu mínútum síðar, á 69. mínútu, og þar við sat.
Lið Tindastóls var þannig skipað að Margrét Rún var í markinu, þá voru Bryndís Rut, Kristrún María, María Dögg og Sólveig Birta í vörninni og síðan voru Bergljót Ásta, Lara Margrét, Anna Margrét, Eyvör, Hugrún og Magnea Petra í byrjunarliðinu. Þá fengu þær Ásdís Aþena, Elísabet Nótt, Emelía Björk og Kristín Björg allar að spreyta sig í síðari hálfleik.
Ýmist verður leikið í Boganum eða á KA-vellinum í Kjarnafæðismótinu en fimm lið taka þátt og mætast öll innbyrðis. Stólastúlkur eiga því eftir að spila þrjá leiki og fara þeir fram næstu helgar; einn hverja helgi ef veður og aðstæður leyfa. Von er á þeim stöllum, Amber og Murr, á Krókinn um mánaðamótin næstu og mögulega ná þær þá síðasta leik Tindastóls í mótinu gegn liði Þórs/KA þann 6. febrúar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.