Stólastúlkur hefja Lengjudeildarbaráttuna með sigri
Lengjudeild kvenna, sú næstefsta í Íslandsmótinu, hófst í kvöld þegar stelpurnar í Tindastól sóttu Aftureldingu heim á Fagverksvellinum að Varmá í Mosfellsbæ og áttu norðanstúlkur harma að hefna frá fyrra ári. Fór svo að fullkomin hefnd náðist með tveggja marka sigri Stóla.
Aldís María Jóhannsdóttir gerði fyrra mark Stólanna á 25 mínútu en Murielle Tiernan það síðara rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Að sög Guðna Þórs Einarssonar, þjálfara Tindastóls var leikurinn heilt yfir fínn af hálfu liðsins. „Það var smá óöryggi í okkar stelpum fyrstu 25-30 mínúturnar og leikurinn opinn en eftir að fyrra markið kemur þá fannst mér við loka á allar þeirra aðgerðir vel og uppskárum sanngjarnan sigur,“ sagði Guðni eftir leikinn.
„Vorum óheppnar að ná ekki inn þriðja markinu en fengum nokkur góð færi til þess. Ég var mjög ánægður með hugarfarið í stelpunum, við áttum harma að hefna frá því í fyrra þar sem við töpuðum á sama velli og það ætluðum við ekki að láta gerast aftur. Við erum hrikalega ánægð með að mótið sé loks hafið og fyrstu þrjú stig sumarsins,“ sagði Guðni aðspurður um leikinn.
Murr hefur verið hægt og bítandi að komast í gott spilform en hún hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli og segist Guðni vegna þessa ekki tekið neina sénsa með hana og leyft henni að ná sér góðri.
„Það segir sig auðvitað sjálft að það skiptir öllu máli að halda henni í okkar röðum, hún er besti leikmaður deildarinnar og það að hún vilji koma aftur til okkar segir manni það að hún hefur mikinn metnað og trú til að koma liðinu eins langt og hægt er og gera betur enn í fyrra.“
Tindastóll var nálægt því að færa sig upp í efstu deild í fyrra en örlög liðsins réðust í síðustu leikjum tímabilsins. Stólar unnu stórsigur gegn ÍA en komst þó ekki upp í deild hinna bestu því FH vann á sama tíma nauman 1-0 sigur á liði Aftureldingar og tryggðu sér því annað sætið og þar með farseðilinn í Pepsí Max.
„Í fyrra vorum við auðvitað grátlega nálægt sæti í efstu deild og við setjum sjálf á okkur þá pressu að gera betur en í fyrra og berjast um efstu tvö sætin og þar með sæti í efstu deild. Þar hefur Tindastóll aldrei átt lið áður og það er draumur sem við viljum gera að veruleika. Hópurinn okkar er mestmegnis byggður á heimastelpum, metnaðarfullur og samheldin hópur sem hafa sett markið hátt og vilja spila fyrir sitt uppeldisfélag í efstu deild. Ég hvet alla stuðningsmenn að fjölmenna á völlinn í sumar og taka þátt í ævintýrinu með okkur,“ segir Guðni að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.