Stólarnir kvöddu 2. deildina með vissum stæl
Síðasta umferðin í 2. deild karla í knattspyrnu var leikin í gær og liðsmenn Tindastóls fengu það strembna verkefni, löngu fallnir, að skjótast á Ísafjörð þar sem Bjarni Jóh og lærisveinar hans í Vestra þurftu sigur til að tryggja sér sæti í Inkasso-deildinni. Það er skemmst frá því að segja að lið Tindastóls tapaði leiknum með miklum myndarbrag og stakk sér þar með ofan í þriðju deild með stæl. Lokatölur voru 7-0 fyrir Vestra.
Það voru aðeins 12 leikmenn á skýrslu hjá Stólunum að þessu sinni og Jonathan Faerber, sem setið hefur á bekknum síðustu leiki, sat þar nú ekki sem markvörður heldur sem útileikmaður en Atli Dagur hefur staðið í markinu að undanförnu. Faerber fékk heiðurs-innáskiptingu á 82. mínútu en þrátt fyrir að vera með tvo „markmenn“ á vellinum tókst Stólunum ekki að koma í veg fyrir að Vestri gerði sjöunda og síðasta mark leiksins fimm mínútum síðar.
Vestrinn kom einbeittur til leiks enda mikið í húfi. Þórður Hafþórs kom þeim yfir á 3. mínútu og Isaac Da Silva bætti við marki á 19. mínútu og Ísfirðingar í góðum gír. Ísak (sem fékk ekki gult spjald í leiknum) hjálpaði heimamönnum aðeins með sjálfsmarki á 32. mínútu áður en Zoran Plazonic gerði fjórða mark Vestra úr víti tveimur mínútum síðar. Í síðari hálfleik gerði Þórður fimmta markið á 66. mínútu, Joshua Signey bætti í púkkið á 73. mínútu og það var svo loks Daníel Ásgeirsson sem klíndi sjöunda markinu í andlitið á Tindastólsmönnum á 87. mínútu.
Þetta er búið að vera erfitt sumar hjá strákunum. Liðið endaði með 12 stig að loknum 22 leikjum og markatöluna 22-62. Það var ljóst fyrir mót að liðið var ekki nógu sterkt, meiðsli hafa auk þess sett strik í reikninginn og án þess að kenna einu né neinu um, fremur en öðru, þá voru Stólarnir ekki að vinna neitt í útlendingahappdrættinu. Keyptu raunar ansi fáa miða í þeim leik (3-4) miðað við mörg liðanna í 2. deild. Þannig voru til dæmis Ísfirðingar með átta eða níu erlenda leikmenn í hóp í gær. Leiknir Fáskrúðsfirði, sem varð efst í deildinni og fer með Vestra upp um deild, var með sjö erlenda leikmenn í byrjunarliði sínu. Einhverjir þessara leikmanna eru mögulega með íslenskt ríkisfang, en sama er um – í fámennum byggðarlögum úti á landi virðist þetta vera leiðin fyrir félögin ef menn stefna á annað borð upp um deild. Það virðist einfaldlega vera nær ómögulegt að ná í lið öðruvísi. Það er af sem áður var!
Nú er ekkert annað í stöðunni en að reima skóna þéttingsfast og mæta til leiks með höfuðið hátt í 3. deildinni næsta sumar. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.